Hæhæ

Ok hvar á ég að byrja?
Ég er 17 ára stelpa, á öðru ári í menntaskóla.
Málið er að ég er með svo lítið sjálfstraust, sjálfsmyndin mín er ekki góð og ég er líka svo feimin og ég er komin með nóg af því. Ég finn líka oft fyrir kvíða þegar ég er ein og ég hef ekki vini mína til að “fela mig á bak við”, þ.e.a.s. þegar ég þarf að gera eitthvað ein. Eins og í tímum, þá þori ég ekki að taka þátt í samræðum því að ég er hrædd um að einhver eigi eftir að hlægja að því sem ég segi, eða það að orðin eigi eftir að koma vitlaust út úr mér eða eitthvað þannig.En ég er alltaf geðveikt hress fyrir framan vini mína, og læt oft eins og ég sé algjört fífl fyrir framan þá! Það er bara ég sjálf, ég fíla mig þegar ég er að fíflast, en ég bara þori því ekki fyrir framan fólk sem ég þekki ekki mikið.
Ég er orðin svo leið á þessu, og ég vil fara að styrkja sjálfstraustið og bæta sjálfsmyndina mína og ég er búin að lesa fullt af greinum um hvernig á að fara að því, en ég fer voða lítið eftir því.
Ég veit innst inni að ég er alveg góð manneskja og allt það, ég bara trúi því sjaldan. Ég meina, það eru allir jafningjar, það er enginn í heiminum sem er æðri en einhver annar sama hvernig hann lítur út eða hvað hann gerir eða hefur gert og svoleiðis.

En meginástæða þess að ég er svona óörugg er sú, að þegar ég var að klára 8.bekkinn fóru stelpurnar sem ég hafði mest verið með í bekknum, hættu bara allt í einu að tala við mig og fóru að hvísla um mig þegar ég sá til og svona. Og í kjölfarið af því þá byrjaði andlegt einelti hjá mér og það var sko ekki gaman, og það hætti ekki fyrr en eftir 10.bekk. Mér leið sko geðveikt illa á þessu tímabili, og ég er eiginlega bara nýbúin að jafna mig eftir þetta.
Ég fór í skóla annars staðar á landinu, út af eineltinu sem mér líður mjög vel í. Mér líður samt miklu betur núna heima, því að ég kynntist nokkrum ágætum krökkum þar í sumar, og það er mjög fínt mál. Og þessar stelpur sem lögðu mig í einelti eru alltaf voða almennilegar við mig núna, sem mér finnst skrýtið miðar við hvernig þær komu fram við mig.
En í fyrra, þegar ég byrjaði í menntaskólanum var ég ennþá illa farin eftir síðustu tvö árin sem voru mér erfið, en ég er búin að eignast marga góða vini hér og ég er alveg ágætlega liðin hérna og svona.
En svo kemur að aðalvandamálinu mínu… Gallinn við mig er nefnilega sá, að ég er eiginlega aldrei fullkomlega sátt við lífið mitt þó að það sé mjög gott miðað við hvað margir aðrir þurfa að þola. Ég vil alltaf eitthvað annað sem er ekki í lífi mínu, eins og til dæmis, kærasta, strákavin (ég er svo feimin við stráka og veit ekki hvernig á að tala við þá), ég vil losna við feimnina og óöryggið, ég á það til að kvarta út af vinum mínum og svo mætti lengi telja.
Ég reyni að vera jákvæð og vera í góðu skapi, og ég er það oftast, en ég er aldrei fullkomlega ánægð, það er alltaf eitthvað sem er að angra mig. Ég er bara svona rosalega skrýtin, eða er þetta kannski algengt vandamál?
Ég er líka aðeins öðruvísi en aðrir, ég hugsa mikið um það sem flestir pæla voða lítið í, og stundum fæ ég ógeð af öllu og þarf smá frí frá vinum mínum og ég verð að fá einhvers konar útrás öðru hvoru. Ég á það til að velta mér of mikið upp úr hlutunum, og ég er svolítil dramadrottning í mér…En það hefur samt lagast svolítið. Mér líður líka vel þegar ég er ein og er að dunda mér við eitthvað, mér finnst það mjög þægilegt.
En það sem ég vil er innri hamingja og sjálfsöryggi, og ég er að biðja ykkur um góð ráð við því, hvernig ég á að fara að þessu öllu saman. Ég er ekki að biðja ykkur um einhverja skyndilausn, heldur eitthvað sem virkar í alvörunni.
Þannig að góð ráð frá ykkur eru vel þegin!
P.S. Takk fyrir að nenna að lesa þetta, ég veit að þetta er frekar löng grein :)
Ég finn til, þess vegna er ég