Morgunstund gefur gull í mund Það er alveg ógeðslega niðurdrepandi að ætla að fara í rúmið á skikkanlegum tíma svona einusinni en gleyma sér yfir einhverju (lærdómi, sjónvarpsglápi, tölvuleik, ástríðufullum ástarlotum, bókalestri, o.s.fr.) og fatta það svo kl. 3 um nótt að maður er ekki enn farinn að sofa og er orðinn alveg ógeðslega þreyttur. Svo hugarðu til þess að klukkuandskotinn byrjar að garga eftir rétt rúma 5 klukkutíma og þá verður þú svo viðbjóðslega þreyttur og syfjaður að þig langar að grýta klukkunni út um helvítis gluggann og gefa skít í allan heiminn þar með talið vinnu, skóla, fjölskyldu, vini svo og allt annað sem gæti hugsanlega staðið í vegi fyrir því að þú kúrir aaaaaðeins lengur og þessi löngun til að lýsa almennu frati í allt og alla á eftir að fylgja þér allan morguninn og vel fram yfir hádegi, þ.e.a.s. ef þú stein sofnar ekki framan á lyklaborðið fyrst sem verður allt útslefað svona um 11 leytið.

Það er líka alveg mannskemmandi andskoti að vakna á svona morgnum og stilla klukkuna á 20 mínútna kúr, eftir að hafa fattað að hún er búin að vera að garga í eyrað á þér í korter, og rifna svo upp úr svefni með andfælum einum og hálfum tíma seinna þegar einhver prímatív skeiðklukka í hausnum á þér hvíslar að þér að þetta séu eitthvað furðulega langar 20 mínútur. Ekkert auka kúr, þarft bara að rífa þig upp og dröslast í fötin sem þú getur ómögulega munað hvar þú lagðir frá þér en á svona stundum er það þrekvirki að reyna að munda hvað maður heitir, hvað þá meira…til allrar hamingju stendur það á öllum debet- og kreditkortunum í veskinu þínu, þ.e.a.s. ef þér tekst að muna hvar þú geymir það. Þú ert orðinn klukkutíma og seinn í vinnuna og átt ennþá eftir að kasta frá þér morgunþvaginu, smyrja nesti, éta morgunmat og greiða þér, manst það síðan þegar þú ert kominn inn á bað með greiðuna í annarri og hin ýmsu límefni í hinni að þú leyfðir vinkonu þinni að snoða þig svo þú ert ekki með neitt hár til að greiða nema þá kannski helst það sem þú tókst með þér í poka af tilfinningaástæðum. Tuttugu mínútum seinna hleypurðu niður stigann heima hjá þér og reynir að hundsa það sem hjartað (sem er ekki vant því að fara úr rólegum 40 slögum á mínútu í góðum svefni upp í 400 slaga panikk við að reyna að halda þér vakandi) í þér er að segja sem er eitthvað á þessa leið : “Ef þú hættir ekki þessum djöfuls hamagangi og slakar aðeins á þá er ég farinn. Þú getur bara drullast til að dæla þínu eigin blóði ef þú ætlar að koma svona fram við mig!!”.

Síðan þegar þú ert kominn hálfa leið út í bíl þá fattarðu að það var kannski ekki gáfulegasti hlutur í heimi að láta taka af þér allt hárið akkúrat í vikunni sem haustfrostið ákvað að leggjast yfir landið svo þú ósjálfrátt rennir upp flíspeysunni þó svo að þú vitir að hún nær ekki upp fyrir haus svo heilinn verður jafn freðinn hvort sem það er hneppt að eða ekki. Þegar þú ert svo kominn út í bíl rifjast það upp fyrir þér hvað það getur orðið alveg þrisvar sinnum kaldara inni í bíl á morgnana heldur en úti og miðstöðvarfjandinn er 10 mínútur að hitna. Þú manst ekki ennþá hvar þú vinnur en þú manst nokkurn vegin leiðina þangað og 9 mínútum einna ertu kominn, slekkur á miðstöðinni sem er ennþá að blása skítköldu lofti framan í þig og bölvar henni í sand og ösku jafnvel þú vitir það að ef ekki hafði verið fyrir þennan kalda gust í fésið hefðirðu sofna á stýrinu á fyrstu rauðu ljósum.
Síðan hleypurðu inn á skrifstofu móður og másandi til að allir sjái að þú varst að flýta þér eins og þú gast en segir samt ekki neitt því innst inni ertu að vona að enginn hafi tekið eftir fjarveru þinni jafnvel þó allir hafi litið upp og gerið þér hornauga dauðans þegar þú ruddist inn með látum. Síðan hlammarðu þér niður fyrir framan skjáinn mundar lyklaborðið og byrjar að kóða, stoppar, horfir hugsandi og einbeittur á svip á skjáinn, fattar hvað var að og kveikir á tölvunni. Þegar þú síðan ætlar að byrja að vinna af einhverju viti fattarðu það að hausinn á þér er ennþá stein sofandi og harðneitar að taka þátt í neinum vitrænum pælingum fyrr en í fyrsta lagi eftir klukkan eitt.

Já, dagurinn í dag verður frábær. Dagurinn í dag verður besti dagur lífs þíns hingað til. Það er æðislegt að vera ég. Ég er hress og kátur og reiðubúinn að takast á við skemmtileg og spennandi verkefni dagsins. Ég ætla að leggja mitt af mörkum í dag. Morgunstund gefur gull *klikk, PÆNG*…