Ég seldi íbúðina mína um daginn, þetta var góð íbúð á góðum stað, sem mikið var lagt í, og allt fyrsta flokks inni í henni. Við vorum bara vaxin upp úr henni. Enda seldist hún í fyrstu vikunni.
Það var ungt fólk sem keypti hana, þeirra fyrsta íbúð. Við ákváðum því að vera almennileg við þetta unga fólk sem var að feta sín fyrstu spor í lífsbaráttunni og skildum eftir handa þeim allar ljósakrónur, sem voru innan við ársgamlar, ISDN-síma að andvirði 15 þúsund, lausa skápa í geymsluna og nokkra fermetra af parketi og gólf- og veggflísum u.m.þ.b. 50 þús kr virði. Auk þess afhentum við íbúðina 10 dögum fyrir umsaminn tíma vegna óskar frá þeim.
Við samglöddumst þeim mikið að fá að búa í þessari stórglæsilegu íbúð.
Sjálf þurftum við að flytja í ekki jafn íburðamikla íbúð, það var fórnarkostnaðurinn við það að fá stærri íbúð fyrir ekki mikið meiri pening.
3 dögum fyrir afsalgerð fengum við óvænt harðort bréf frá þeim þar kvartað var yfir galla í íbúðinni og krafist þess að leitað yrði lausna á þessu máli. Það var haldinn fundur þar sem þau gáfu skýrt í skyn að við hefðum leynt þessu fyrir þeim, þegar sannleikurinn er sá að þau sáu þennan galla greinilega og við útskýrðum fyrir þeim við skoðun og afhendingu að þetta umrædda atriði hefði verið svona allan tíman sem við bjuggum þarna og við vissum í raun ekki orsök þess og þar sem okkur þætti þetta svo smávægilegt þá hefðum við aldrei gert neitt í þessu.
Um var að ræða atriði sem var svo smávægilegt að það var varla tímans virði að ræða það, hvað þá allra þeirra hluta sem við létum fylgja með íbúðinni sem gjöf.
—-
Foreldrum mínum fannst svo gaman að hjálpa okkur að mála og flytja, að innan við mánuði eftir að við fluttum voru þau búin selja gömlu íbúðina að festa kaup á gömlu parhúsi í sömu götu. Það var mikið sem þurfti að gera því tíminn milli afhendinganna var hnappur, svo það var unnið myrkranna á milli á 200 % krafti. Þegar kom að afhendingu voru foreldrar mínir farnir að þjást að ofþreytu svo þau ákváðu að ráða fagfólk í þrifin og borguðu fyrir það tugi þúsunda. Þetta gerðu þau þrátt fyrir að konan sem var að kaupa af þeim hefði hringt sérstaklega í þau til að láta þau vita að þau þyrftu nú ekkert að vera að stressa sig mikið á þrifunum því hún ætlaði að rífa af öll gólfefni og leggja parket og mála alla íbúðina.
Afhendingin fór svo fram á réttum tíma og allt eins og það átti að vera…. eða það héldum við. Innan við viku frá afhendingu sendi þessi kona fasteignasölunni heilsíðu lista af atriðum sem ekki voru í lagi í íbúðinni, þar efst á blaði að þrif hefðu verið léleg og gólfefni væru verr farin en hún hafði séð við skoðun. Restin voru allt atriði sem voru klárlega að, en henni höfðu verið sýnd þau öll og listi yfir þau borin undir hana við kaupsamning.
Engum er enn ljóst hvað hún er að pæla með þessum lista eða hvað hún er vonast til að græða á þessu.

Ég fer út í Bónus reglulega eins og annað fólk. Þegar ég kem að kassanum lendi ég í 90% tilvikum á eftir konum sem virðast halda að þær séu einar í heiminum. Þær eru með troðfulla körfu af vörum, og samt dettur þeim ekki í hug að byrja að setja ofan í pokana, eða færa kerruna fyrr en búið er að slá allar vörurnar inn og þær búnar að borga. Þangað til standa þær bara og horfa út í loftið með yfirlætissvip og laga á sér hárið.
Þetta gerir það að verkum að ekkert pláss er fyrir vörurnar hjá mér og það hægist óendanlega á röðinni.
Þetta eru pottþétt sömu kellingar og leggja körfunum sínu þvert fyrir á göngunum á milli vörurekkanna á meðan þær eru að skoða verðið á tómötum, og dettur ekki í hug að færa þær, sama þó allt sé orðið stíflað alveg fram í inngang.

Þegar ég þarf að fara og keyra eitthvert, er eins gott að vera vel upplagður, bæði andlega og líkamlega. Því það er sko ekki nóg að kunna sjálfur umferðareglurnar og fara eftir þeim því mikill skortur er á fólki þarna úti sem dettur í hug að það sé fólk af holdi og blóði inni í þessum kössum á hjólum og að það þurfi kannski líka að komast á milli staða en sé ekki bara þarna til að flækjast fyrir þeim eins og í lélegum tölvuleik.

Ef ég á erindi í opinbera stofnun, þarf ég extra mikinn kjark. Það er leitun að starfsfólki í þjónustu hjá hinu opinbera sem kann að brosa og svara spurningum á eðlilegan hátt, án þess að vera með hroka og yfirlætissemi. Það er eins og það standi í starfslýsingu þess fólk sem vinnur við þjónustu hjá hinu opinbera : “Kúnninn er heimskur, aldrei að sleppa úr tækifæri til að segja honum það.”

Ég á vini sem vinna á vinnustað þar sem yfirmennirnir nota hvert tækifæri til að rakka niður undirmenn sína og segja þeim að þeir séu heimskir, ef þeir gera ekki hlutina alveg eins og hann vill. Þegar þeir hinsvegar gera hlutina vel, fá þeir aldrei hrós.

Dag eftir dag heyri ég svona sögur frá vinum, kunningjum og ættingjum.
Hver sem maður fer og hvað sem maður gerir má maður alltaf búast við því að fólk sé í meirihluta sjálfselskt og kærulaust um náungann. Þetta er orðið svo slæmt að maður býst alltaf við hinu versta. Svo mikið að það kemur virkilega á óvart ef svo ólíklega skyldi vilja til að maður fáu góða þjónustu, að ekki sé svínað á mann í umferðinni, eða að náunginn reyni ekki að traðka eins mikið á manni og hann mögulega getur.

Ég tel mig ekki vera neitt sérstaklega trúaða, hugsa lítið um þau mál.
En ég get ekki gert að því að hugsa hvað hefur orðið um náungakærleikann sem Jesú boðaði og hvers vegna enginn lifir eftir þessari einföldu reglu sem ekki aðeins myndi gleðja okkur frá degi til dags, heldur óumdeilanlega breyta lífi okkar allra :
“Það sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra.”