Animaniacs - 1. Hluti (Fyrsti hluti af tveimur af öðrum hluta í þríleiknum)

Ein af mörgum ástæðum fyrir því að ég er svo mikill nörd er sú að ég nánast ólst upp við sjónvarp. Ekki kenna mér um það; foreldrar mínir nældu sér í eitt stykki afruglara fyrir næstum tólf árum og var hann notaður óspart af bæði mér og húsbóndanum á heimilinu. Nú, og svo náttúrulega það að þau voru aldrei heima þannig að ég hafði lítið annað að gera en að horfa á teiknimyndir (ekki segja „Gastu ekki bara verið með vinum þínum?“ því ég gerði það auðvitað líka). Ég rakst á marga gullmola á sínum tíma, þ.á.m. The Mask, Beetlejuice, SWAT Cats, Tom & Jerry og svona mætti lengi telja. Þó stendur mjög hátt í minni þættir sem ég skildi ekki bofs í, en fannst samt sem áður með bestu þáttum sem ég sá. Nú skulum við hætta að rifja upp æskuminningar mínar og vinda okkur að kjarna málsins:

ANIMANIACS – 1993-1998

[youtube]http://www.youtube.com/watch?v=KA0TS9l_nJE
(afsakið gæðin)

Vegna þess hversu vinsælt Tiny Toon Adventures var ákvað hreyfimyndadeild Warner Brothers að búa til aðra þáttaröð með svipaðri grind. Skrifarar, framleiðendur og leiksjórar komu sér saman um að hanna nýjar persónur; persónur sem væru aðeins innihaldslega byggðar á húmor frá gömlum teiknurum á borð við Chuck Jones og Tex Avery. Ólíkt Tiny Toons var ekki ein einasta persóna í Animaniacs byggð á einhverri annarri úr fortíðinni. Vissulega tóku skapararnir anda Looney Tunes sér til fyrirmyndar en notuðust ekki við það að öðru leyti. Margar persónur voru rissaðar og nokkrar komust á það stig að vera málaðar. Þeim var síðan varpað til framleiðanda Stevens Spielberg og var það hann sem valdi úr þær persónur sem honum fannst ættu að vera með í Animaniacs (þó var það dóttir hans sem valdi að Buttons og Mindy fengju að vera með). Hönnun þeirra kom úr öllum áttum, allt frá því að gera grín að fólki sem vann við þættina til að byggja þær á gömlum hönnunum frá fjórða áratugnum.

Húmorinn í Animaniacs samanstóð af blöndu af gamalgóðri hnyttni, orðaleikjum og öðrum skemmtilegum orðahúmor, tilvísanir í atburði líðandi stunda (s.s. gera grín að fræga fólkinu eða ákveðnum atvikum sem höfðu nýlega eða fyrir löngu síðan átt sér stað), og auðvitað hinu klassíska teiknimyndaofbeldi. Mikið af þáttunum fór einnig óbeint í að kenna krökkum ákveðna hluti í t.d. sögu, stærðfræði, landafræði, vísindum og samfélagsfræði. Flestir af þessum kennsluþáttum voru einmitt svo vel hannaðir og skrifaðir að krakkar áttuðu sig ekki einu sinni á því að það væri verið að kenna þeim, fannst þetta bara skemmtilegt. Einnig var mjög vel falinn „fullorðins“ húmor í sumum þáttum, þar sem brandararnir voru svo vel faldir að þeir fóru framhjá Fox Censors. Eftir slíka brandara myndi Yakko yfirleitt veifa til áhorfandans og segja “Good Night Everybody!“ Dæmi um slíkan falinn brandara – og um leið orðaleik – má finna í þættinum “Chalkboard Bungle“:

Miss Flameil: „Yakko, can you conjugate?“
Yakko: „Who me? I‘ve never even
kissed a girl!“
Miss Flameil: „No no no, it‘s easy. I‘ll conjugate with you.“
Yakko: *til áhorfandans* „Good Night Everybody!“
Miss Flameil: „You don‘t understand. Let me go up to the board and show you.“ *fer að töflunni*
Yakko: *enn við áhorfandann* „Don‘t look!“


Annað sem aðgreindi Animaniacs frá Tiny Toons var að á meðan hið síðarnefnda notaðist meira við sögulega þætti (þ.e.a.s. hver þáttur var með einhverja smá sögu), þá hafði Animaniacs meira svona sketch-show ívaf. Grunnurinn var að hver þáttur samanstóð af þremur litlum þáttum (5-10 mínútur) og svo litlum skemmtiatriðum inn á milli, svo sem söngatriði, gagnslaus fróðleikur og annað.

Persónurnar (allavega nokkrar aðalpersónur, s.s. Yakko, Wakko og Dot, Dr Scratchansniff, Mr. Plotz og Hello Nurse) búa á kvikmyndasettum (e. Movie Lot) í Burbank í Kaliforníu. Þó er ekki sjálfgefið að þær séu alltaf þar. Aðstæðum og tímaumgjörðum er breytt fram og til baka til að passa við söguþráð hvers þáttar, en í grunninn er Burbank heimabær þeirra.

Margir skrifarar tóku þátt í að skrifa fyrir Animaniacs og var einmitt meiri hlutinn af þeim með reynslu í svona sketch-skrifum. En þó svo að handrit þáttanna hafi yfirleitt verið grín eða uppspuni voru einnig nokkrir þættir sem voru byggðir á reynslum skrifaranna sjálfra. Góð dæmi um þetta eru “Ups And Downs“, sem byggður var á reynslu Paul Rugg, “Survey Ladies“ sem Deanna Oliver lenti í, og “I Got Yer Can“ sem Sherri Stoner byggði á sinni eigin reynslu:

[youtube]http://www.youtube.com/watch?v=hW9ujl7TOpc

[youtube]http://www.youtube.com/watch?v=3fQy5wbYRko

[youtube]http://www.youtube.com/watch?v=0hM0Cy8XTVU

Hreyfimyndagerðin fyrir þættina var einnig mjög strembin enda voru alltaf ákveðnar dagsetningar (skiladagar, ef svo má að orði komast) fyrir hverja þætti. Mörg hreyfimyndastúdíó tóku þátt í að gera Animaniacs að þeirri snilld sem það svo varð, og má þar nefna Tokyo Movie Shinsha, StarToons, Wang Film Productions og Rough Draft Studios til dæmis, þó það hafi jú verið nokkur í viðbót.

Tónlistin í Animaniacs var alveg jafn mikilvæg fyrir þættina og Tiny Toons sem og alveg jafn ólík í hverjum þætti fyrir sig. Sérstök tónlist var samin fyrir hvern og einn einasta af meistara Richard Stone, og aðstoðartónskáldum Steve og Julie Bernstein. Auk bakgrunnstónlistarinnar voru einnig mikið af lögum sem leikararnir sungu svo í karakter. Gátu þessi lög ýmist verið alvöru lög með breyttum textum (svo sem “Wakko‘s America“ þar sem farið er yfir öll fylki Bandaríkjanna og höfuðborgir þeirra við lagið “Turkey in the Straw“), eða paródýur af alvöru lögum sem hljómuðu þá eins og upprunalega lagið en var aðeins grínútgáfa (t.d. “Slippin‘ on the Ice“ sem gerði augljóslega grín að “Singin‘ in the Rain“). Flóknustu lögin fékk samt persónan Rita en raddleikkona hennar var einmitt lærð söngkona.

Það er því nokkuð ljóst að Animaniacs voru snilldarþættir, innihéldu húmor sem hæfði öllum sem tóku upp á því að horfa á þá og skemmtu þeim alveg jafn mikið. Sönghæfileikar raddleikaranna standa líka mjög ofarlega í minni sem og framúrskarandi tónlistin sem á lengi eftir að sitja í manna minnum þeirra sem sáu þættina.PS: Fyrir þá sem skildu ekki „fullorðins“ brandarann þarna uppi, þá er að sjálfsögðu um kynferðislegan orðabrandara að ræða. Miss Flameil átti auðvitað við „conjugate“, þ.e.a.s. sagnbeygingu, en Yakko túlkaði það sem „conjugate“ í meringunni æxlun frumvera…