Rusli og Snyrti - frábær teiknimynd Þegar ég var lítill strákur þá fór ég oft í afmæli til vina minna. Þá tíðkaðist, eins og nú til dags, að horfa á vídeó og urðu þá teiknimyndir oft fyrir valinu, eins og gefur að skilja þegar afmælisgestir eru ungir krakkar. Í þessum afmælum sá ég margar skemmtilegar teiknimyndir en ein stendur upp úr og gnæfir yfir hinar í minningunni. Þessi frábæra teiknimynd heitir Rusli og Snyrti og þótti mér hún svo skemmtileg að ég notaði hana í mínu eigin afmæli, nokkrum áður síðar.

Rusli og Snyrti er bresk teiknimynd, framleidd af BBC, sem fjallar um vinina Rusla og Snyrta sem búa í Hlýðnilandi. Myndin er í raun nokkrir (u.þ.b. 10) fimm mínútna langir þættir og hver þeirra segir frá einu ævintýri sem félagarnir lenda í. Persónurnar tala ekki sjálfar heldur gefa frá sér drepfyndin hljóð, sem einkenna hverja persónu. Sögumaður er enginn annar en leikarinn góðkunni Magnús Ólafsson og leiðir hann áhorfendur í gegnum einfalda og vinalega atburðarásina.

Tilvalið er að kynna helstu persónur myndarinnar.

Snyrti og glæsilegur snyrtipinni sem býr í fallegu húsi í miðju Hlýðnilandi. Hann gengur ávallt um með bindi og fátt þykir honum skemmtilegra en að vinna í gróðursæla garðinum sínum og rækta gúrkur. Einnig þvær hann bindin sín reglulega og hengir þau upp til þerris. Hljóðið hans Snyrta er ógeðslega fyndið baul sem minnir á öskur þroskahefts manns.
Rusli er vinur Snyrta og býr á ruslahaugunum. Hann öfundar Snyrta af fallega garðinum hans en engu að síður standa þeir saman í blíðu og stríðu. Útlit hans er í grófum dráttum eins og lítill loðinn rauður bolti. Rusli gefur frá sér aulalegt hljóð sem erfitt er að lýsa hér.
Grænsi er tvífætt vera sem hoppar um og étur allt, meðal annars gúrkurnar hans Snyrta.
Sóði er nákvæmlega eins og Grænsi nema hann er brúnn og gengur um í stígvélum. Hann elskar að hoppa í drullupolla og skvetta á aðra.
Dundi býr á kletti og á fullt af fallegum leikföngum sem hann leikur sér með daginn út og inn. Hann er mjög hægfara og meinlaus.
Syfji er alltaf að reyna að sofna.
Lubbi er heimskur loðinn “hundur” sem Snyrti notar sem hest.
Róli flytur póst. Hann er hálfgerður fugl
Asi er flúgandi hjálparhella sem í einum þætti bjargar lífi Snyrta.
Tanni á allt og getur galdrað með því að smella fingrum.
Suða og Rella eru heimskar býflugur.
Neiji er vondi kallinn í myndinni. Hann er risastór og rauður. Í einum þáttanna stelur hann gúrkunum sem allir hinir höfðu safnað.
Hættessu er könguló sem hrekkir aðra og gefur frá sér ruddaleg hljóð sem minna á viðrekstur.
Nokkrar persónur er ótaldar en ég man ekki hvað þær heita.

Hver þáttur fjallar um það þegar Rusli og Snyrti hitta einhverja af hinum persónunum, þ.e.a.s. sérhver þáttur er helgaður einni aukapersónu. Þættirnir eru mjög fyndir. Söguþráðurinn er ákaflega barnalegur enda er markhópur myndarinnar 4-6 ára krakkar, held ég. Það sem ég og vinir mínir kunnum að meta voru hljóðin í persónunum, sérstaklega í Snyrta. Hann hreytir út úr sér hverjum gullmolanum á fætur öðrum, eins og ÖHHHÖÖÖ, AAAAAAAAAAAH, OOOEEE o.s.frv. Það er erfitt að verjast hlátri þegar Snyrti er á skjánum.

Ég trúi ekki öðru en að á meðal ykkar leynist einhverjir sem kannast við þessa bráðskemmtilegu teiknimynd. Þið ættuð alla vega að skella ykkur út í sjoppu og leigja Rusla og Snyrta. Ekki munuð þið sjá eftir því.

(Myndin er af Rusla og Snyrta. Sjáiði hvað þeir eru vinalegir)
Gleymum ekki smáfuglunum..