Fleiri sögur úr Andabæ Hæhæ, núna ætla ég að segja aðeins frá tveimur þáttum til viðbótar úr þáttaröðinni Sögur úr Andabæ. Þættirnir sem ég ætla að segja frá eru seinni þættirnir á spólunum “Andarskjálfti” og “Agnarendur utan úr geimnum”.

Fyrst ætla ég að segja frá þættinum “Jafnvægi Jóakims”. Það byrjar þannig að Ripp, Rapp, Rupp og Sibba fara að veiða. Þau veiða því miður ekkert nema skó en fara að tala um að Jóakim hugsi of mikið um peninga og ekkert annað. Þau komast að því að honum veiti ekki af gæludýri til að dreifa huganum. Því miður eiga þau ekki pening fyrir gæludýri en eru svo heppin að sjómaður einn gefur þeim læmingja sem heitir Láki. Þau fara til Jóakims, sem er nýbúinn að fá nýjan talnalás. Réttu tölurnar til að opna fjárhirsluna eru bara til í einu eintaki, sem Jóakim setur í hálsfesti. Þegar strákarnir og Sibba koma til Jóakims hoppar læminginn úr pokanum og nær einhvern vegin að setja á sig hálsmenið sem tölurnar til að opna fjárhirsluna eru í. Síðan hoppar hann út um gluggann. Þeir elta Láka um allan bæ en hann nær að hoppa um borð í skip sem er að fara til Norðvegs. Loftur flygur með Jóakim, strákana og Sibbu til Norðvegs en þá kemur í ljós að Láki er búin að ganga til liðs við læmingjaher sem herjar í Norðvegi. Fólkið sem er að flýja segir að læmingjarnir hoppi í sjóinn og sjáist aldrei aftur eftir að þeir hafi borðað allt sem tönn á festi. Viltu vita endinn? Nær Jóakim að stöðva Láka og taka hálsfestina áður en Láki hoppar í sjóinn með hinum læmingjunum? Endilega horfið á spóluna.

Seinni þátturinn sem ég ætla að tala um heitir ”Annað gullæði”, en sá þáttur byrjar á Valentínusardegi (held ég) en þar minnist Jóakim þess þegar hann gróf upp gull í Klondyke og hvernig Gulla Glitönd stal gullinu hans. Hann sagði að hann hafði grafið upp mikið gull ásamt Gullu við Hvítengdará. Svo minntist hann að hann ætti enn skikann sem stóð við Hvítengdará og fara þá Jóakim og strákarnir til að grafa meira gull. En þegar þeir koma að skikanum sjá þeir að einhver býr þar. Þeir rekast á björn einn og lenda í vandræðum. En strákarnir komast að því að björninn er taminn og tamningarmaðurinn er sá sem á heima í húsinu. Svo komast þeir að því að húseigandinn er Gulla Glitönd sjálf. Gulla og Jóakim tala saman en Gulla heldur því fram að Jóakim hafi stolið gullinu. Þau verða ósátt og tala ekki meira saman. Jóakim og strákarnir grafa hins vegar upp slatta af gulli en þegar þeir fara heim með lestinni er lestin rænd. Hver er að ræna lestina? Hver stal gullinu? Ef þið viljið vita það, horfið endilega á spóluna. Ég mæli eindregið með þessum spólum handa öllum börnum sem vilja fjör og spennu.