Aristocats / Hefðarkettirnir - 1970 Þar sem allir eru búnir að vera að skrifa um nýjar eða nýlegar myndir ákvað ég að taka fyrir eina gamla og góða.
Þótt Hefðarkettirnir séu orðnir gamlir hefur myndin staðist tímans tönn. Hún er enn klassísk og höfðar til allra aldurshópa

Myndin fjallar um kisufjölskyldu, Dutchess (mamman), Toulouse, Marie og Berlioz (ketlingarnir), sem eiga heima á hefðarheimili í París. Eignandi þeirra er madame Bonfamille og elskar hún kettina sína meira en allt í heiminum. Á heimilinu býr einnig butler sem heitir Edgar. Edgar hugsar um kisurnar og hin dýrin (hestinn Frú Frú og músina Roquefort) og virðist sakleysis grey. Þegar Madame fær heimsókn frá lögfræðingnum sínum breytist allt. Edgar hlerar samtal þeirra og kemst að því að Madame ætlar að erfa kettina sína að öllu sem hún á, og á eftir þeim komi svo Edgar. Edgar kemst að þeirri niðurstöðu að þar sem kettirnir eru 4 og hver köttur hafi níu líf og lifi í amk. 10 ár, þá sé nokkuð ljóst að ekkert komi í hans hlut.
Hann tekur því til sinna ráða og ætlar að koma kisufjölskyldunni fyrir kattarnef. Hann nemur þau á brott í skjóli nætur og fer með þau lengst upp í sveit. Á leiðinni lendir hann í tveim sveitahundum sem gera honum lífið leitt, en honum tekst áætlunarverk sitt og snýr aftur heim. Þegar Madame kemst að því að kisurnar hennar eru horfnar verður hún óhuggandi og Roquefort fer út að leyta. Daginn eftir þegar Edgar er að gefa Frú Frú monntar hann sig af ráninu og því að hann skuli hafa komist á forsíðuna í blaðinu. Þannig komast Frú Frú og Roquefort að því hver ræninginn er.
Kisurnar hins vegar vakna í aldeilis ókunnugu umhverfi og vita ekkert hvað hefur komið fyrir. Þær ákveða að bíða morguns og sjá svo til. Um morgunin kemur til sögunnar flækingsköttur að nafni Abraham Delacy Geuseppy Macy Thomas O'Malley, sem yfirleitt gengur undir nafninu O'Malley. Hann heillast af Dutchess og ákveður að hjálpa þeim að komast heim. Hann kemur þeim um borð í mjólkurbíl og þegar mjólkurbíllin fer og ketlingarnir eru að kveðja dettur Marie af bílnum svo O'Malley verður að hafa snöggar loppur og stekkur með hana um borð og ákveður þá að fylgja þeim alla leið. En mjólkurbílstjórinn kemst fljótt að laumufarþegunum og rekur þau í burtu.
Þau ákveða þá að fylgja lestarteinum og þurfa að fara yfir brú. Í því kemur lest svo þau verða að fara á bitana undir brúnni til að lestin keyri ekki yfir þau, en í öllum hamaganginum dettur Marie ofan í ánna fyrir neðan brúna. Aftur kemur O'Malley til bjargar og stekkur á eftir henni, nær henni og hendir henni í land, en þar sem hann er kisa, og ekkert sérstaklega góður að synda tekst honum ekki að koma sjálfum sér í land. Þar sem hann er að ströggla við að halda sér á floti ber að garði tvær gæsir, systurnar Abigail og Amelia, sem eru á ferðalagi frá Englandi. Þær fara O'Malley til bjargar og draga hann á land. Þær reynast vera á leið til Parísar eins og kisurnar svo þau ákveða að verða samferða. Þær stilla öllum upp í “oddaflug” segja “think goose!” og leggja svo í hann. Kisurnar vagga af stað og Toulouse segir við mömmu sína “mama, do we have to vaddle like they do?” og hún segir “yes dear, think goose!” Þetta þótti mér vafalaust eitt fyndnasta atriðið í myndinni :)
Þegar þau koma til Parísar er komið upp undir myrkur og fyrsta “manneskjan” sem þau rekast á þegar þangað er komið er uncle Valdo, frændi gæsanna. Hann er annsi skrautlegur karakter, sem hafði rétt sloppið undan að vera aðalrétturinn á veitingahúsi, koníakslegin gæsasteik. Þar skilja leiðir og kisurnar halda sína leið. Þeim finnst heldur seint til að fara heim, svo O'Malley bíður þeim að fara heim til sín og gista þar. Þegar þangað er komið er þar fyrir hreysikötturinn Scat Cat og gengið hans. Það er hressilegur hópur sem spilar blús og djass langt fram eftir nóttu. Þegar þarna er komið er ljóst að Dutchess og O'Malley eru orðin hrifin af hvort öðru, en þykir þeim útlitið heldur svart þar sem hann er villiköttur og hún hefðarköttur.
Daginn eftir halda kisurnar heim og enn skilja leiðir. Þegar heim er komið tekur enginn annar en Edgar á móti þeim, hann stingur þeim ofan í kistu og ætlar að senda þær til Timbuktú. Roquefort stekkur af stað til að ná í O'Malley sem sendir hann að sækja Scat Cat. Það vill þó ekki betur til en svo að Roquefort er mús og Scat Cat köttur en Roquefort nær að kalla nafn O'Malley áður en kettirnir éta hann. Þeir taka hann trúanlegan og stökkva af stað til bjargar Dutchess og ketlingunum.
Að sjálfsögðu endar allt vel, og það er Edgar sem endar í koffortinu sem fer svo til Timbuktú. O'Malley er tekinn inn í fjölskylduna og Edgar sést aldrei framar.

Þessi mynd er að mörgu leyti öðruvísi heldur en nýju myndirnar, teikningarnar öðruvísi og tónlistin í takt við þá tíma sem hún er teiknuð á. En enga að síður er þetta skemmtileg mynd og algjör klassík. Myndin hefur nú verið þýdd á Íslensku en því miður hef ég ekki séð hana eftir það og hef því ekki hugmynd hvað persónurnar heita á íslensku og þið verðið bara að afsaka það :)
Sem fyrr biðst ég fyrirfram afsökunar á öllum stafsetningar- og innsláttarvillum sem kunna að leynast í textanum :)

kveðja