Fyrir hvað stendur J. í Homer J. Simpsons? Samkvæmt viðtali við skapara Simpsons-teiknimyndanna, Matt Groening, stendur J-ið fyrir millinafnið Jay. Þetta kemur fram í þættinum „D'oh-in' in the Wind“ í 10. seríu þáttanna (og ber númerið AABF02) þar sem Homer grefur upp hippafortíð móður sinnar. Brandarinn felst í því að á ensku heitir stafurinn „j“ einfaldlega „jay“, eins og Homer héti Hómer Joð á íslensku.

Matt Groening segir ennfremur að joðið sé til heiðurs teiknimyndapersónunum Rocky og Bullwinkle sem fullu nafni heita Rocky J. Squirrel og Bullwinkle J. Moose. Þar skírskotar joðið til höfunds þeirra, Jay Ward. Sumir vilja skýra joðið út sem tilvísun í Harvard-vísindamanninn Stephen Jay Gould en sá hefur birst í Simpsons-þætti, auk þess sem margir þeir sem skrifa þættina koma frá Harvard.

Þess má geta að Matt Groening hefur sagt frá því að nöfn allrar Simpsons-fjölskyldunnar séu ættuð úr fjölskyldu sinni, faðir hans hét Homer, móðir hans Margaret (Groening þótti Marge nógu líkt og fyndnara), systur hans Lisa og Maggie og fleiri mætti telja til. Groening fannst hins vegar of áberandi að nota sitt eigið nafn á persónuna sem fékk nafnið Bart. „Bart“ er einnig fyndnara, stafavíxl á orðinu „brat“ sem þýða mætti sem „krakkaóféti“.

Meira er á reiki hvaðan Simpsons-nafnið sjálft kemur, en bent hefur verið á kvikmynd, Day of the Locust frá árinu 1975, þar sem Donald Sutherland leikur persónuna Homer Simpson sem þykir ekki ólík Hómernum okkar. Önnur skýring hljómar á þá leið að yfirmaður öryggismála hjá kjarnorkuverkinu á Three Mile Island, þar sem versta kjarnorkuslys í sögu Bandaríkjanna varð þann 28. mars 1979, hafi einmitt heitið Homer Simpson! Sá maður hafi svo farið í mál við framleiðendur Simpsons-þáttanna en ekki haft erindi sem erfiði.

Kveðja Birki