Virtual Bart er skemmtilegur tölvuleikur sem byggir á Simpsons heiminum. Þegar ég spilaði leikinn þá var hann á Sega Mega Drive II leikjatölvunni.

Í kynningarmyndbandi leiksins er Bart að labba um einhverja skólastofu. Það er einhvers konar vísindasýning og nemendurnir eru að sýna vísindaverkefnin sín. Mig minnir að vondu strákarnir hafi svo komið og handsamað Bart. Hann endar alla vega á miðju “lukkuhjóli” sem snýst og þá byrjar leikurinn. Bart snýst í hringi á hjólinu og þegar spilarinn ýtir á einhvern takka þá stoppast hjólið á einum af 7 reitum og maður fer í viðeigandi borð. Fyrsti reiturinn gefur manni aukalíf en hinir senda mann í eitt af sex borðum leiksins. Þeim verður nú lýst.

Risaeðluheimur. Bart er risaeðla og hann gengur um eitthvað hálfgert steinaldarsvæði þar sem blandað er saman risaeðlum og steinaldarmönnum. Þetta borð spilast eins og venjulegur Sega hoppskopp-leikur. Hinar Simpsons-persónurnar eru allar einhvers konar steinaldarmenn og maður á að labba um borðið og að lokum drepa endakallinn. Hefðbundið og skemmtilegt.

Smábarnaheimur. Maður stjórnar Bart sem smábarni og reynir að komast í ísbílinn. Fyrst er maður að sveifla sér í greinum, svo gengur maður á símalínu, síðan kemur kerrukappaakstur og að lokum fer maður í sirkusinn. Spilunin er hefðbundin hoppskopp-spilun. Það skemmtilegasta er að þegar maður er í loftinu getur maður opnað bleyjuna og svifið í loftinu.

Grísaheimur. Bart er svín sem þarf að losna úr Corndogs-verksmiðjunni hans Crusty. Maður þarf að safna lyklum og bjarga öðrum svínum til þess að komast á leiðarenda. Á leiðinni fer maður í gegnum frystinn og ofninn. Endakallarnir eru svo á skrifstofunni.

Mótorhjól. Leiðinlegasta og að mínu mati erfiðasta borðið. Bart er á mótorhjóli og á að komast að kjarnorkuverinu (eða var það frá því?). Vondu strákarnir eru á fjórhjóli og maður getur kastað vatnsblöðrum í þá. Venjulegt bílaleikssjónarhorn.

Vatnsrennibrautin. Bart er í vatnsrennibraut og fer rosalega hratt þannig að maður tekur fram úr öllum sem eru fyrir. Oft kemur fyrir að hægt er að velja um tvær leiðir og þá er aðeins önnur rétt en hin leiðir mann til fyndins dauða. Þetta borð er svoldið skemmtilegt.

Tómatakast. Langskemmtilegasta borðið og uppáhaldsborðið mitt. Bart felur sig bak við ruslatunnu á skólalóðinni og nemendur og starfsfólk skólans labba framhjá. Maður á að kasta tómötum í nemendurna og þá hverfa þeir. Takmarkið er að kasta í alla í bekknum en ef maður hittir í kennar eða lögguna þá tapar maður. Það er samt leyfilegt að hitta í rassinn á Skinner þegar hann er að reima, það gefur fleiri tómata. Í seinni hluta borðsins er maður að kasta eggjum og þá labba fórnarlömbin á ská.

Í hvert skipti sem maður vinnur borð þá fer maður aftur í hjólið og velur annað borð. Takmarkið er að vinna öll borðin og þegar það tekst þá hefur maður klárað leikinn.

Þetta er mjög skemmtilegur leikur sem ég spilaði oft þegar ég var yngri. Hefur einhver annar spilað hann?
Gleymum ekki smáfuglunum..