Ég var bara að skoða grein frá Conqueror þar sem ég las um persónurnar, þ.e. hvernig þær höfða til okkar.
Á nýja DVD safninu er viðtal við Matt Groening þar sem hann útskýrir þetta aðeins betur. Eins og margir vita þá eru flestir meðlimir Simpsons fjölskyldunnar skírðir í höfuðið á meðlimum Groening fjölskyldunnar. Undantekningarnar eru Marge (og þó, móðir MG heitir Margaret) og Bart en Bart er í raun skírður í höfuðið á Matt, bæði nöfnin hljóma eins og hundur að gelta þegar Hómer segir þau í bræði sinni (prófið bara að segja “Matt” með hómerslegri röddu). Þættirnir eru upprunalega gerðir um Bart. Bart er byggður á Matt og því aðalpersónan…til að byrja með. Þegar Matt Groening var að alast upp segir hann að hann hafi verið keimlíkur Bart Simpson. Honum gekk illa í skóla og jafnvel talað um á sínum tíma að láta hann endurtaka 4. bekk í grunnskóla!
En eins og Conqueror bendir á þá er Hómer persóna sem maður lærir að kunna að meta með árunum. Matt Groening var líka fljótur að átta sig á þessu. Það geta allir fundið til með Hómer. Allir geta einhvern veginn samsvarað sig í einhverju af uppátækjum hans en þrátt fyrir að vera alveg ótrúlega heimskur þá er hann einmitt besta skinn og vill í rauninni engum illt.
Hvað Lísu varðar þá var hugmyndin sú að hafa ótrúlega hæfileikaríka manneskju fasta í fjölskyldu sem skilur hana ekki. E.t.v. er þetta önnur hlið á Matt sjálfum, þ.e. að enginn hvatti hann til dáða þegar hann var sífellt að teikna þegar hann var yngri, þvert á móti sögðu foreldrar hans honum að hætta þessari vitleysu. Enginn hlustar á Lísu þrátt fyrir að hún sé gáfaðasta og sennilega “góðasta” manneskjan í þáttunum. Hún er grænmetisæta, hugsar um umhverfið og lætur sig spillingu í Washington varða. Það væri sennilega hægt að fara í pælingar þess efnis að Lísa sé táknræn fyrir hvað er að Ameríku í dag, þar eru til gáfur og góðvilji en enginn hlustar?
Hér verður þó til staðar numið að sinni…vona að einhver lesi þetta.