Það er alveg með ólíkindum hvað fólk getur verið trúgjarnt! Hef hvað eftir annað fengið e-mail þar sem maður er hvattur til að vara sig á “vírusnum” jdbgmgr.exe og eyða honum ef hann finnst hjá manni (sem hann gerir þar sem þetta er eðlilegur hluti af Windows!). Og svo annað um illa meðferð á kettlingum sem er troðið í flöskur (!), svokallaða “Bonsai kittens”, og þar er maður hvattur til að skrifa undir og áframsenda skeytið til sem flestra til að mótmæla illri meðferð á grey dýrunum. Svona tölvupóstar eru hinn raunverulegi vírus. Fólk virðist gleypa við nánast hverju sem því er sent, ef það gerði bara einfalda leit á Netinu kæmi strax í ljós að hvoru tveggja er þekkt gabb í netheimum. Nú ætla ég að fara og senda öllum viðvörun um að heilinn þeirra gæti verið sýktur af vírus sem sviptir þá allri gagnrýnni hugsun og almennri skynsemi! ;)