Þetta er óskaplega barnalegt umræðuefni. Ég er bara svo hrifinn af alhliða lausnum.
Windows Media Player vill þráfaldlega sækja rekla (sem er ástæðan fyrir því að ég hef löngu skipt í VideoLAN VLC, sem er með opinberan kóða) fyrir hin ýmsu form tónlistar og myndbanda. Ekki nóg með að til séu óendanleg snið á þessum skrám, heldur eru þau aftur bætt viðstöðulaust, allt til hins betra.
Það er í sjálfu sér ekkert rangt við það að skrár taki minna pláss og séu í betri gæðum. Það er aftur þreytandi fyrir hinn almenna notanda að þurfa stanslaust að sækja fleiri og fleiri rekla í þennan tröllvaxna haug sem fyrir er. Það halda kannski margir að þetta sé nauðsynlegt. Hvernig ættu allir að koma sér saman um eitt snið? Hvernig ættu allir að geta sameinast um snið sem einhver einn framleiðir?

Galdurinn felst í frjálsum kóða. Open source. Ég er kannski ekki að setja þetta inn á réttum stað, ég ætti að gera þetta á alþjóðaráðstefnu tölvunarfræðinga. Ég hef bara ekki við slíku, jafn upptekinn og ég er við allt annað, og einhversstaðar þarf ég að byrja.
Ég er persónulega, eins og ég nefndi áður, mikið fyrir alhliða lausnir. All Programs listinn minn þarf ekki að fylla skjáinn. Kerfið á að ræsast og ég á að geta notað eitt forrit fyrir myndbönd, eitt fyrir tónlist og eitt fyrir myndir (og helst eitt fyrir allt saman), auk ritvinnsluforrits. Hversu flókið þarf þetta að vera?
Væri ekki betra að hafa þetta einfalt? Þá höfum við tíma til að vinna að raunverulegum vandamálum.