Inngangur
Hve fúlt væri það ef öll tölvugögnin þín myndu hverfa? Allar ljósmyndirnar, uppáhalds lögin þín og lokaritgerðin. Ýmislegt getur komið fyrir: Vírusar sem eyða öllu, harði diskurinn verður fyrir skaða eða hrynur af sjálfu sér, innbrot í hús og bíla, fartölvunni stolið nánast fyrir framan nefið á þér. Svo er alltaf hægt að gera mistök eins og að yfirskrifa skrár. Flestir gera sér einhverja grein fyrir þessari hættu, en allt of fáir gera nægjanlegar ráðstafanir.

Utanáliggjandi harðdiskur
Lausnin sem ég mæli með fyrir flesta er ekki mjög flókin: Fáðu þér utanáliggjandi harðan disk, helst a.m.k. helmingi stærri en það gagnamagn sem þú reiknar með að þurfa að geyma. Síðan skaltu afrita öll gögnin á tölvunni yfir á diskinn og setja diskinn síðan einhvert upp í skáp þar sem hann er óhultur fyrir þjófum. Síðan uppfærirðu afritið sem oftast, t.d. annan hvern dag, en auðvitað þarf ekki að uppfæra afritið ef þú hefur ekki unnið neitt í gögnunum síðan þú uppfærðir síðast.

Það eru til tól sem uppfæra aðeins þær skrár sem hafa breyst frá síðustu uppfærslu, sem veldur því að uppfærslan tekur yfirleitt innan við 10 mínútur. Eitt slíkt nefnist Unison og er ókeypis á netinu og virkar bæði fyrir Windows og UNIX-leg stýrikerfi. Ég hef reyndar ekki prófað það ennþá. Ég nota mirrordir, en það er gott fyrir UNIX-leg stýrikerfi. Ef hugarar vita um betri tól til þessa verks þá mega þeir gjarnan benda á þau hérna fyrir neðan.

Nauðsynlegt að eiga minnislykil
Þó er einn laus endi ennþá. Þegar maður er að skrifa ritgerð eða eitthvað slíkt, þá er óásættanlegt að síðasta öryggisafritið af henni sé tveggja daga gamalt. Þess vegna er gott að fá sér usb minnislykil og nota hann sem aðalgeymslu fyrir þau skjöl sem þú ert að vinna í þessa dagana. Svo geturðu tekið daglegt öryggisafrit af lyklinum inn á harða diskinn í tölvunni. Þetta hefur líka þann plús að ef tölvan bilar af einhverri ástæðu, þá þarftu ekki að bíða eftir að fá viðgerð til að geta haldið áfram. Þú ferð einfaldlega með minnislykilinn í einhverja aðra tölvu og heldur áfram nákvæmlega þar sem frá var horfið. Mundirðu ekki eftir að ýta reglulega á save?

Farðu nú að gera eitthvað í þínum afritunarmálum.