Ég spjalla hér um nokkur forrit.

Microsoft Word.

Sumir kalla það Word, aðrir Bird. Ég kýs að kalla það Word. Þetta er í dag
vinsælasta ritvinnsluforritið í heiminum. Það þýðir ekki að það sé það besta.
Ég dæmi ekkert um það hér. En þetta forrit býður upp á marga möguleika.
Til dæmis er hægt að skrifa inn texta og prenta hann út, stækka letur og
skipta um leturgerðir texta sinna að hluta til eða í heild.

Microsoft Excel.

Vinsælasti töflureiknirinn á markaðnum í dag. Þar er meðal annars hægt að
slá inn endanlega runu af tölum og reikna út summu þeirra og meðaltal.
Ef um tvær endanlegar runur af tölum er að ræða, má gera úr þeim graf.
Í gegnum punktasafnið, sem þá fæst út, má svo teikna beina línu, margliður
af fleiri stigum (en þó getur stig margliðunnar ekki verið hærra en 6; þetta
atriði tel ég harla lélegt), veldisföll og lograföll svo dæmi séu nefnd.

Maple.

Eitt besta táknreiknikerfið á markaðnum. Sem dæmi getur maður stimplað
inn “2+2;” og fengið “4”. Eins getur maður diffrað og heildað hin flóknustu
föll, bæði symbólískt og númersískt. Afar öflugt forrit. Einnig er hægt að
láta það, ef maður vill, hjakkast á örgjörvanum og láta það reikna út eins
marga aukastafi á PÍ og maður vill. Þetta forrit er eitt besta táknreiknikerfið
í heiminum. Athugið: Eitt besta. Hitt góða forritið er Mathematica og getur
það gert svipaða hluti, stundum getur það gert þá betur en Maple.

Minesweeper.

Besti leikurinn sem Microsoft hefur gert. Allir þekkja hann og því læt ég hér
ógert að fjalla nánar um hann.

Notepad.

Þetta forrit getur gert góða hluti fyrir þá sem hafa ekki efni á Word. Þetta
er minni útgáfa, en takmarkun þess felst í því að ekki er hægt að breyta
útliti hluta textans; annaðhvort breytir maður útliti alls textans, eða engu
af textanum.

Og síðast en ekki síst: Paint.

Þetta er fræðilega séð öflugasta myndvinnsluforritið á markaðnum í dag,
miðað við hvað það kostar (ef við gerum ráð fyrir að Windowsið sé komið).
Maður getur auðveldlega customizað sinn eigin pixel, þ.e. ráðið hvaða
litur fer á hann. Þetta þýðir auðvitað að hægt er að gera hinar fallegustu
ljósmyndir í þessu forriti. Allir fítusar Photoshop eru þar með sjálfkrafa
innifaldir í þessu handhæga forriti.


Látum þetta gott heita í bili.

Evklíð.