Hvernig verka disklingar og harðir diskar í tölvum Harði diskurinn og disklingar tilheyra svokölluðu ytra minni í tölvu. Ytra minnið geymir gögn, forrit og næstum allt það sem á að varðveita eftir að slökkt hefur verið á tölvunni.

Á hörðum diskum og disklingum eru segulsvið og járnseglandi efni notuð til að skrá upplýsingar. Járnseglandi efni hafa þann eiginleika að þau seglast þegar þau eru sett í segulsvið, en það þýðir að segulsviðið í efninu breytist. Seglun efnisins helst þó að slökkt sé á ytra segulsviðinu og því er hægt að breyta efninu varanlega með því að setja það í segulsvið í skamma stund.

Innan í hörðum diski (e. hard disk drive) eru skífur, húðaðar með járnseglandi efni. Mismunandi punktar á yfirborði skífunnar geta haft mismunandi seglun og hægt er að skipta skífunni niður í fjölda örsmárra svæða. Með því að stjórna seglun hvers punkts má skrá gögn á diskinn.

Dæmigerðir harðir diskar í heimilistölvum í dag geta geymt fleiri tugi gígabæta af gögnum. Til að sem minnstur tími fari í að lesa og skrifa á skífurnar snúast þær mjög hratt, yfirleitt fleiri þúsundir snúninga á mínútu. Í hverju diskadrifi geta verið nokkrar skífur og er hægt að skrifa á báðar hliðar hverrar skífu.