Hefur BT séð ljósið? Ég bjóst nú ekki við því að geta nokkurn tíman sagt þetta en, BT er bara farin að standa sig!

Þannig er mál með vexti að tengdó tók upp á því að gefa litlu systur spúsu minnar, þ.e.a.s. yngri dóttur sinni Tölvuorðabók í afmælisgjöf.

Tölvuorðabók þessi átti að vera á 6 málum (íslensku, ensku, þýsku, dönsku, frönsku og einhverju nýju máli sem þeir kalla spánsku) og hafa möguleikann á að leyfa notandanum að heyra framburð orða á þessum 6 málum ásamt því að vera með ritli sem bjóða átti upp á upplestur á texta á téðum málum. Fyrir herlegheitin voru greiddar krónur 14.999.

Í upphafi tókst uppsetning ekki, forritið vildi ekki fúnkera, allt í lagi, reynt aftur. Núna fúnkerar forritið en leyfisupplýsingar, sem manni er bent á að lesa áður en forritið er tekið í notkun vantar. Allt í lagi, hver les það svosem. Þá er manni sagt að senda upplýsingar sem gefnar eru upp og skráðar á diskinn á eitthvað netfang og manni tjáð að maður fái að nota forritið 30 sinnum EÐA í 30 daga EÐA í 30 klst á meðan maður bíður eftir lykilorði eða slíku.

Ok, við smellum okkur inn í forritið og byrjum að prófa. Við fyrstu sýn virðist þetta afskaplega einfalt database forrit, svona eins og maður gerði á meðan maður var að læra að forrita, nema hvað að það á að vera svo svakafínn fídus í því, upplestur orða. Við veljum orð og viljum fá upplestur “Næringarfræði”, upplestur á íslensku, smellt á fánann (fundum út að það ætti að gera innan skamms, ekki mjög augljóst en samt), útkoma: Narinngafrissí. ‘Ó, við hljótum að hafa gert eitthvað vitlaust, prófum ensku.’ “Chopper”= chopbör, hver hleypti Stephen Hawking hingað inn?

Jæja, kannski getur forritið eitthvað annað sniðugt. Aha! Þarna er eitthvað sem heitir ritarinn, ritillinn sem ég minntist á áðan. Slæ inn smá texta, smelli á mynd af hátalara, tölvan frýs. Hmm, ætli þetta sé fídus. Jæja, endurræsing. Tölvan slekkur á sér í miðri ræsingu. Safe Mode. Endurræsing. Tölvan slekkur á sér. Safe Mode. Uninstall. Endurræsing. Tölvan keyrir sig upp, allt í lagi. Install. Forrit prófað, virkar eins og áður nema það frýs ekki, reynum að láta það lesa texta á nokkrum málum án þess að það sé merkjanlegur munur á framburði, samt stilltum við á tungumálið sem við skrifuðum textann á. Endurræsing til að prófa. Tölvan slekkur á sér. Safe Mode. Uninstall. Diskur tekinn úr, settur í hulstrið, blótað yfir gallaðri vöru.

Nú kemur svo að hlutanum sem ég er ánægður með, við fórum með forritið niður í BT Kringlunni og segjum farir okkar ekki sléttar, albúin því að þurfa að rífast, hóta neytendasamtökunum og Stöð 2 en undur og stórmerki! Piltur í búðinni skaust í símann, kom aftur 5 mínútum síðar og endurgreiddi okkur gripinn! Ég nánast fékk tár í augun.

Og þetta er víst ekki einsdæmi, vinur minn keypti sér DVD spilara sem átti að geta spilað allt, samkvæmt sölumanni, en gat það svo ekki. Hann hafði samband og BT öðlingarnir skiptu spilaranum fyrir hann þó að nokkrir mánuðir hefðu liðið frá kaupunum. Ég get bara eitt sagt, batnandi verslun er best að lifa.
Skoðanir Octavo eru hans eigin og gætu því stangast á við skoðanir annarra á Huga. Þér er velkomið að: