BT án vaxta og verðbólgu? Ágæta fólk,

Ég eins og sjálfsagt svo margir aðrir, gladdist óendanlega yfir því að sjá BT bjóða nýja tölvu á vaxtalausu láni til 12 mánaða. Ég kaupi gripinn hugsaði ég með mér, en ákvað nú samt að fara og skoða í öðrum verslunum. Ég fór í allt í 4 búðir, BT þar með talda, og ég verð að viðurkenna það að mér er brugðið. Ég sé það núna að ég hef verið hafður að fífli, BT er búið að senda mig út um allan bæ út af falskri auglýsingu.

Fáðu glæsilega heimilistölvu fyrir aðeins 14.999 kr. á mánuði, án vaxta og verðbólgu!!! Samtals 179.988 kr. Það væri ekki slæmt ef satt væri! Nú skal ég sýna ykkur að hverju ég komst.

Ég fór í fjórar verslanir eins og ég sagði: BT, Tæknibæ, Tölvulistann og Hugver. Tæknibær, Tölvulistinn og Hugver gátu boðið mér “sömu tölvu” (munaði einhverju, en ég taldi mig vera fá tilboð í sambærilega vél) og BT var að bjóða á 140 til 150 þúsund krónur. Þetta sagði t.d. Tölvulistinn: Vélin (sem mér sýndist vera alveg eins) kostar 144.900 kr. hjá okkur (þeim í Tölvulistanum) staðgreitt eða 156.492 kr. á vísa raðgreiðslum. Ef þú setur vélina á afborganir til 12 mánaða þarftu að borga í allt (með lántökugjaldi, vöxtum og seðilgjaldi - áætlað) 178.800 kr. ! ! ! Svipaða sögu var að segja í Tæknibæ og Hugveri.

Mitt litla ferðalag í gær hefur sem sagt kennt mér það að það er hægt að fá hluti án vaxta og verðbólgu, en þeir eru bara mikið dýrari fyrir vikið. Ég vona að það séu ekki margir sem hafi fallið fyrir þessu trikki hjá BT, ég myndi ekki vilja versla mér tölvu og svo fatta það að ég hafi verið plataður til þess að borga allan kostnaðinn í hærra vöruverði.

Kveðja,
deTrix