Lítil saga um Medion fartölvu Þessi grein byrjaði nú sem svar við korki um Medion vélar, en þegar ég sá hvað svarið varð langt, þá ákvað ég að breyta því bara í grein.


Mig langar að koma með smá innlegg sem fyrrum eigandi Medion fartölvu…

Ég man nú ekki hvaða típa þetta var eða neitt slíkt, nema það að hún var voða fallega blá og silfruð, og alveg dúnduröflug. Hún virkaði fínt hjá mér, gat keyrt öll mín forrit á henni (sem eru nú svosem ekki neitt geðveik þung svona dags daglega) en hún var mjög hraðvirk. Hvað gerist svo einn vondan veðurdag, þegar ég ætla að kveikja á minni ástkæri tölvu? Bara viftan fer í gang!

Allt í lagi, tölvan er enn í ábyrgð, svo ég ákveð að anda rólega. Þetta var ca. tæpu ári eftir að ég fékk hana, svo ég fer bara með hana til söluaðila og þaðan er hún send á “viðurkennt verkstæði” eins og þetta var orðað svo pent við mig.

Ok, ég fæ vélina til baka (eftir freeekar langan tíma), og þær skýringar að móðurborðið hafi eyðilagst. Allt í lagi, ég tapa engum gögnum, komin með tölvuna aftur og allt í góðu með það.

Ca. mánuði síðar endurtekur sagan sig, nema hvað þá fer vélin í gang með skrýtnum skilaboðum á skjánum en vill ekkert meir, opnar ekki stýrikerfi og ekki neitt, sama hvað er gert. Til að gera langa sögu stutta, endurtekur ferlið sig nú, og AFTUR er skipt um móðurborð í vélinni.

En hvað er nú í gangi? Einn takkinn á lyklaborðinu er “horfinn”, þ.e., ekkert kemur þegar er slegið á hann. Ekki nóg með það, heldur er þessi lykill núna kominn á ANNAN takka! Hvernig í ósköpunum sem það á nú að hafa gerst….

Ég fer með hana aftur til söluaðila, ekki alveg sátt við þetta. Aftur er hún send á þetta blessaða viðurkennda verkstæði, en þaðan fæ ég þau skilaboð að ég hafi sjálf skemmt tölvuna með þessum hætti. Nákvæmlega hvernig, spyr ég á móti? Ég hafi kveikt á tölvunni, farið að vinna í Word…. og svo bara takkinn horfið?

Eftir mikið hnuss í verkstæðaköllum, var ákveðið að ekki væri hægt að gera við tölvuna, svo ég fæ nýja, sömu gerðar. Með því náttúrulega tapa ég öllum gögnum því mér var tjáð að búið væri að “farga vélinni” þannig að ekki var hægt að fá nein gögn til baka.

Ok, ekkert gerist í dáldinn tíma eftir þetta.

Þegar um það bil 4 mánuðir eru eftir af ábyrgðinni, þá fær tölvan annað svona áfall. Þóttist ég nú vita að móðurborðið væri farið enn eina ferðina, og er nú orðin frekar þreytt á þessu rugli. Fer með hana til söluaðila enn einusinni, með það í huga að nú muni ég ekki taka við vélarfjáranum aftur, þetta sé orðið full mikið af því góða.

Þar er mér tjáð mjög pent að vélin þurfi nú að fara enn einusinni á þetta blessaða “viðurkennda verkstæði”. Ég rek nú sögu vélarinnar og segist nokkuð viss um að nú sé móðurborðið nú farið enn eina ferðina. Sölumaðurinn fullvissar mig um að það sé afar ólíklegt, líklegra sé að viftan sé farin eða eitthvað svoleiðis. Ég yppi nú bara öxlum yfir því.

U.þ.b. 2 vikum síðar er mér tilkynnt um það að vélin sé núna loksins komin í lag, og að jú þetta hafi nú verið móðurborðið. Ég segist nú ekki vera allskostar sátt sökum þess að það sé nú búið að skipta amk einu sinni of oft um móðurborð í vélardruslunni (reyndar tvær vélar… en mér finnst það samt ekki réttlæta eitt né neitt).

Ég tala við verslunarstjóra á staðnum og geri ég honum grein fyrir því að ég neiti að taka við þessari vél til baka. Það vær bara ávísun á að hún myndi bila aftur fljótlega á sama hátt.

Eftir að hann var búinn að leggjast undir feld og hugsa málið í viku var mér boðin önnur fatölva, HP vél, sem ég tók. Með henni fékk ég nýja ábyrgð og er bara mjög sátt við hana, jafnvel öflugri en Medion vélin.

Ég tek það samt skýrt og greinilega fram, að Medion vélin klikkaði aldrei á meðan hún var í notkun, fyrir utan þetta að móðurborðin brunnu öll yfir. Enn fremur tek ég það fram að ég er mjög meðvituð um hvernig ég fer með tölvurnar mínar, enda á ég þær nokkrar, og er Medion vélin sú eina sem ég hef nokkurntíman þurft að fara með á verkstæði.