Endalaus ruslpóstur Allt frá upphafi internetbyltingarinnar og tölvupóstsamskipta hafa söluaðilar fyrir hinn ýmsasta varning séð hag sinn í því að auglýsa á netinu, bæði á venjulegum heimasíðum svo og í tölvupósti. Á seinni árum hefur auglýsingaflóðið orðið yfirþyrmandi og flestir gera hvað sem er til þess að losna við að sjá auglýsingar.
Auglýsingar í tölvupósti er það allra versta, af ýmsum ástæðum. Þessarri grein er ætlað að gefa þér örlitla mynd af því hvernig þetta ferli virkar, og hvað hægt sé að gera til þess að koma í veg fyrir það.

—————————————–
Hver s vegna fæ ég ruslpóst?
—————————————–
T vær ástæður geta verð fyrir slíkum sendingum. Í fyrsta lagi getur verið um tölvuveiru að ræða. Tölvuveirur dagsins í dag virka flestar þannig að þær senda tölvupóst á öll netföng í netfangaskrá Windows stýrikerfisins. Þess vegna er ekki ólíklegt að slíkar sendingar komi frá kunningjum eða vinum. Í sumum tilfellum gæti meira að segja litið út fyrir að sendingin komi frá þér sjálfum/sjálfri.
Í öðru lagi kemur “ruslpóstur” frá fyrirtækjum og einstaklingum sem vilja komast yfir aurana í veskinu þínu. (Ég kalla þessi fyriræki og einstaklinga auglýsendur). Í flestum tilfellum eru þessir auglýsendur afar varasamir og geta þess vegna ekki auglýst á hefðbundinn hátt í dagblöðum eða sjónvarpi. Annað hvort er ástæða þess sú að auglýsandinn er óheiðarlegur og ætlar sér að ræna þig, eða að sú vara eða þjónusta sem hann selur er í eðli sínu vafasöm. Þetta á sérstaklega við allt sem tengist kynlífi. Oftar en ekki liggja báðar ástæður að baki.
Ekki spillir fyrir að ruslpóstsendingar eru afar ódýrar, og algerlega áhættulausar sé rétt staðið að þeim. (Til dæmis með því að senda skeytin gegnum Kína.)

Allar auglýsingar virka, og það á einnig við um auglýsingar í tölvupósti. Því miður eru margir sem láta plata sig af slíkum sendingum. Sérstaklega þeir sem ekki þekkja til veraldarvefsins, eða hafa of mikla trú á að allir vilji þeim vel. Mundu að í augum auglýsandans gætir þú orðið næsti viðskiptavinur, eða fórnarlamb, hvort heldur sem á það er litið.

—————————————–
Hv ernig fá auglýsendurnir netfangið mitt?
—————————————–
Hér erum við komin að kjarna málsins. Ef auglýsandinn veit ekki netfangið þitt, getur hann heldur ekki sent þér tölvupóst. Viti hann hinsvegar netfangið þitt, mun hann ekki bara nota öll tækifæri til að senda til þín auglýsingar, heldur einnig selja netfangið þitt til annarra auglýsenda.
Auglýsendur hafa margar aðferðir til þess að komast yfir netfangið þitt og ég ætla að telja upp nokkrar.

- Heimasíðan þín.
Margir gefa upp netfangið sitt á heimasíðunni sinni, til þess að vinirnir geti sent skemmtileg bréf, eða jafnvel MSN skyndiskilaboð. Það er auðvitað mikilvægt að vinir og vandamenn viti tölvupóstfangið þitt, rétt eins og heimilisfangið. Hinsvegar skiptir miklu máli HVAR netfangið er gefið upp. Margir auglýsendur hafa nefnilega smíðað forrit sem flakka um vefinn og safna saman öllum netföngum sem þau finna. Þess vegna borgar sig aldrei að gefa netfangið sitt upp á heimasíðunni.

- “Segðu vini”.
Sumar síður bjóða upp á eyðublað þar sem þú ert beðin(n) um að slá inn netföng nokkurra vina til þess að segja frá frábærri heimasíðu. Stundum geturðu meira að segja fengið verðlaun fyrir. Slík eyðublöð eru í mörgum tilfellum einmitt gerð til þess að safna netföngum á auglýsingalista. Regla númer 1 varðandi tölvupóstsamskipti ætti að vera: ALDREI gefa upp netföng vina þinna eða kunningja.

- Afþreyjingarsíður.
Margar afþreyjingarsíður, þmt leikjasíður og spjallsíður krefjast þess að þú gefir upp netfangið þitt. Stundum er óhætt að gefa netfangið upp og stundum ekki. Hinsvegar ættirðu að athuga eftirfarandi atriði áður en þú gefur netfangið þitt upp:

1) Hvað gerir síðan með netfangið þitt? Yfirleitt þarftu að lesa notendaskilmála áður en þú skráir þig, og þar kemur yfirleitt fram af hvaða ástæðum beðið er um netfangið þitt.

2) Þarftu að merka við áhugamálin þín? Þegar skráningarsíða biður þig um að merkja við áhugamál þín, án sýnilegrar skýringar, er nokkuð líklegt að ástæðan sé auglýsingapóstur.

- Ókeypis hugbúnaður og njósnahugbúnaður.
Ókeypis hugbúnaði má auðveldlega skipta í þrjá flokka. Í fyrsta lagi kynningareintök af stærri hugbúnaði (shareware), ókeypis hugbúnað (freeware), og opinn eða frjálsan hubúnað (open source).
Ef um er að ræða opinn hubúnað eru hverfandi líkur á því að valdi skaða. Í hinum tveimur tilfellunum er mikilvægt að hafa augun meira opin en venjulega. Mikið af ókeypis hubúnaði njósnar um notandann og sendir ýmsar upplýsingar í gangabanka á netinu, þar með talið netföng. Þú getur verið alveg 100% viss um að þú ert aldrei beðin(n) um netfangið þitt að ástæðulausu.
Sem dæmi um hugbúnað sem virkar á þennan hátt, má nefna forritin GATOR og BonziBuddy.

- Keðjubréf.
Mörgum þykir gaman að senda brandara, vísur eða annað efni til allra vina sinna í einu. Þeir vinir senda bréfin síðan áfram til sinna vina, og svo koll af kolli. Þetta köllum við keðjubréf. Aftur á móti eru fáir sem gera sér grein fyrir hættunni á bak við slík bréf.
Þegar þú sendir bréf til margra viðtakenda, sendirðu að öllu jöfnu einnig netföng allra viðtakendanna með. Þegar síðan einn af viðtakendunum sendir bréfið áfram, er þessum lista yfirleitt bætt við nýja bréfið, og hann sendur áfram, ásamt nýjum lista. Við hverja áframsendingu hleður listinn utan á sig og inniheldur mjög fljótlega hundruð netfanga. Að lokum kemst síðan þessi listi í hendur eihvers auglýsanda, sem ekki er lengi að bæta honum í safnið sitt.
Þetta má hinsvegar koma í veg fyrir með mjög einföldum hætti. Í stað þess að nota To: hólfið undir netföng viðtakenda, má nota Bcc: hólfið. Netfönging í Bcc: hólfinu eru ekki send með bréfinu.

—————————————–
Viðhald ruslpóstlista
—————————————- -
Eigendur netfangalista reyna flestir að halda þeim við: bæta reglulega við listann og eyða reglulega út óvirkum netföngum. Til þess að ákvarða hvort að netfang sé virkt eru margar aðferðir. Sum bréf innihalda litla kóðabúta sem senda upplýsingar til baka þegar bréfið er opnað. Sum bréf innihalda lítinn tengil sem á stendur “unsubscribe” (afskráning) en er einungis ætlaður til að athuga virkni netfangsins.


—————————————–
Nokkur einföld ráð
—————————————–
Hér koma nokkur ráð til að koma í veg fyrir ruslpóst, eða alla vega draga úr honum

- Aldrei gefa upp netfangið þitt án þess að lesa skilmála eða leyndaryfirlýsingar síðunnar. (privacy statement)
- Aldrei gefa upp netföng annarra.
- Eyddu öllum ruslpósti sem þú færð sendan, ÁN þess að opna hann. Svaraðu aldrei ruslpósti.
- Ekki nota “preview pane” í MS-Outlook.
- Ekki sýna netfangið þitt á heimasíðunni þinni
- Ekki taka þátt í keðjubréfasendingum
- Aldrei skrifa meira en þrjú til fjögur netföng í To: hólfið. Notaðu frekar Bcc: hólfið.


—————————————–
Hvað ef það er ekkert Bcc: hólf?
—————————————–

- M icrosoft Outlook og Ximian Evolution
Veldu File-> New->Mail message úr aðalvalmynd forritsins. Þá opnast gluggi til að skrifa nýjan tölvupóst. Veldu View->Bcc field úr valmynd gluggans.

- Microsoft Outlook Express.
Veldu File-> New->Mail message úr aðalvalmynd forritsins. Þá opnast gluggi til að skrifa nýjan tölvupóst. Veldu View->All headers úr valmynd gluggans

- Netscape/Mozilla mail.
Veldu File->New->Message úr aðalvalmynd forritsins. Þó opnast gluggi til að skrifa nýjan tölvupóst. Smelltu á To: takkann og veldu Bcc: í staðinn