Spurl.net - haltu utan um það sem þú lest “Segðu mér hvað þú lest og ég skal segja þér hver þú ert” segir erlent máltæki.

Máltækið bendir á það hversu mikilvægar þær upplýsingar og þau gögn sem við lesum eru okkur. Á hverjum degi innbyrðum við gríðarlegt magn upplýsinga úr ýmsum áttum. Þessar upplýsingar móta hugmyndir okkar, skoðanir og upp að ákveðnu marki persónuleika. Það er því merkilegt hversu lítinn gaum við gefum að því að halda utan um þessar upplýsingar.

Tilgáta mín er sú að fyrir þessu séu tvær megin ástæður:
- Ekki hafa verið fyrir hendi hentug tól til að halda utan um þær.
- Vegna þess að tólin hafa ekki verið til, hefur fólk ekki leitt hugann að mikilvægi þess að halda utan um þessar upplýsingar.

Þetta eru einmitt ástæðurnar fyrir því að ég smíðaði þjónustuna Spurl.net. “Spurlinu” er einmitt ætlað að takast á við þetta vandamál.

Ég lagði áherslu á að reyna að gera Spurlið sem allra einfaldast í notkun og þannig að fyrir notendur verði það samofinn þáttur þess að vafra um Vefinn. Grunnvirknin er þessi: Í hvert sinn sem þú sérð eitthvað sem vekur athygli þína á Vefnum smellirðu á takka til að “spurla” síðuna. Þjónustan geymir hana á svipaðan hátt og bókarmerki, en að auki geymir hún texta síðunnar þannig að þú getur seinna leitað sérstaklega í því sem þú hefur lesið. (Hver hefur ekki lent í því að finna ekki aftur greinina sem hann veit að hann las, en man ekki hvar?) Spurl.net geymir meira að segja, ef um það er beðið, afrit af síðunni, þannig að sé hún seinna tekin niður eða hlekkurinn einhverra hluta vegna breytist, áttu samt afrit af síðunni. Einnig er hægt að bæta við meiri upplýsingum um síðuna svo sem minnispunktum og lýsingu og flokka síðuna niður í flokka sem notandinn býr sjálfur til. Allt miðar þetta að því að hjálpa notandanum að finna síðuna aftur.

En af hverju að merkja síður sérstaklega? Af hverju ekki að láta Spurlið bara fylgjast með öllu sem maður les? Vegna þess að stór hluti af því sem við lesum eða skoðum á Vefnum er ekki svo ýkja merkilegur. Ætlunin er sú að það sem notendur “spurla” sé efni sem þeim finnst áhugavert, eða á einhvern hátt merkilegt. Þannig verða spurlin manns skrá yfir það áhugaverða sem maður hefur rekist á á Vefnum.

Ég er ekki fyllilega sannfærður um að persónulegar leitarniðurstöður séu sú himnasending sem umræðan um það nýjasa á sviði leitarvéla hefur viljað halda fram að undanförnu. Á hinn bóginn er ég sannfærður um að notendum sem byrja að halda utan áhugaverða hluti á Vefnum, munu að nokkrum mánuðum liðnum velta því fyrir sér hvernig þeir komust af án þess.

Auk grunnþáttanna “geyma & leita” sem nefndir eru að ofan, getur Spurlið líka notað upplýsingarnar til að veita notendum alls kyns aðra áhugaverða þjónustu, tengda spurlum þeirra:
- Spurlið stingur upp á öðrum síðum sem notendum með svipuð áhugamál hefur þótt áhugavert (og þess vegna góðar líkur á að honum eða henni þyki það líka).
- Notendur geta með mjög einföldum hætti birt spurlin sín á blogginu sínu eða öðrum vefsíðum.
- Svokallaður “Spurl beam” (mætti þýða sem “Spurlaás”, sbr. “Tímaás”) sýnir spurl notenda á tímaás og má birta með einföldum hætti á hvaða vefsíðu sem er.
Þetta er bara toppurinn á ísjakanum, nú þegar er verið að smíða inn í Spurlið alls kyns viðbótarmöguleika sem gera það ennþá skemmtilegara og gagnlegra.

Grunnþjónustan er samt aðalatriðið, að týna ekki upplýsingunum sem eiga þátt í að skapa hugmyndir okkar og skoðanir.

Allar hugmyndir og ábendingar um Spurlið eru mjög vel þegnar.