[Copy/Paste]
http://loki.rds.is/hjalid/ Skráðu þig hér.

Ég held að þetta verkefni sé lofsvert og að sem flestir íslendirgar ættu að taka þátt í þessu verkefni.

Um verkefnið Hjal

Hjal verkefnið snýst um að gera tölvum kleift að skilja talað mál, nánar tiltekið íslenskt mál. Nú þegar geta tölvur skilið fjöldann allan af tungumálum, allt frá ensku til basknesku og finnskrar sænsku með viðkomu í kínversku og japönsku.

Með því að kenna tölvum talað mál er hægt að nálgast ýmsar upplýsingar með síma sem áður var of dýrt að veita, hafa aukið umferðaröryggi með því að leyfa raddstýringu á aukabúnaði bíla og fleira mætti telja til.

Tæknilega er ekkert því til fyrirstöðu að tölvur geti skilið íslensku. Hins vegar hafa hin erlendu fyrirtæki sem unnið hafa að slíkum verkefnum mjög takmarkaðan áhuga á íslensku, þar sem hana tala einungis tæplega 300 þúsund manns.

Við Íslendingar þurfum því að taka að okkur þetta verk sjálfir, bretta upp ermar og gera íslenskt talmál tölvutækt. Menntamálaráðuneytið ákvað því að auglýsa verkið og var það gert snemma árs. Til verksins fengust Síminn, Nýherji, Háskóli Íslands, Grunnur-Gagnalausnir og Hex hugbúnaður.

Þetta verkefni er stórt skref fyrir íslensku. Því er ætlað að safna saman hljóðdæmum frá fjölda fólks. Þessi hljóðdæmi eiga, þegar þau eru öll saman komin, að innihalda öll hljóð í íslenskri tungu, eins og þau eru sögð af lýsandi hópi Íslendinga.

Þú ert einn þeirra Íslendinga sem við viljum gjarnan heyra í. Við höfum valið safn orða, setninga og stafa sem innihalda flest hljóð íslensku. Við fórum þá leið að velja af handahófi setningar úr skáldsögum á íslensku, algengar skipanir, algengar tölur og svo mætti lengi telja.

Upptökurnar fara fram gegnum síma. Við biðjum þig að reyna að sjá til þess að það sé tiltölulega hljótt í kringum þig þegar þú hringir inn. Á hinum enda línunnar er tölva sem leiðbeinir þér við verkið og safnar upptökunum saman. Þú þarft bara að lesa hvern textabút fyrir sig inn. Tölvan bíður samviskusamlega eftir að lestri lýkur – og biður þig síðan um næsta textabút.

Þessar upptökur verða hvergi birtar opinberlega og eingöngu starfsmenn verkefnisins og þeir sem fá til þess leyfi menntamálaráðuneytisins munu nokkurn tímann heyra þær. Þeir sem heyra upptökurnar hafa auk þess ekki aðgang að upplýsingum um hver þar er á ferðinni, við gerum allt til að gæta fyllsta trúnaðar. Ástæðan fyrir því að við biðjum um kennitölu er sú að mikilvægt er að fá fólk úr öllum aldurshópum. Einnig er mikilvægt að fá fólk úr öllum landshlutum til þess að mismunandi framburður komi fram.

Við minnum á að þið sem takið þátt í verkefninu með okkur takið þar með þátt í happdrætti þar sem dregnir verða út flottir GSM símar.

Með kærum þökkum fyrir þátttökuna, hún er forsenda þess að verkefni skili árangri.



Samstarfshópurinn um Hjal
Live to update