Eftir stórskemmtilegan leik Portúgala og Englendinga sem heimamenn unnu 8-7 eftir vítaspyrnukeppni er maður orðinn spenntur fyrir næstu þrjá leiki í fjórðungsúrslitunum. Það er alltaf erfitt að spá fyrir um leiki, margir þættir spila inn í sem ekki er hægt að vita fyrirfram, t.d. dagsform liðanna, sálfræðiþátturinn, þ.e. hvernig leikurinn spilast, hvort liðið skorar fyrst, o.s.fr. Þess vegna ber ekki að taka þessa spá of alvarlega, þetta er meira til gamans gert, en auðvitað reyni ég að giska á rétt úrslit.


Frakkland 3 - 0 Grikkland
Raunveruleg úrslit: 0 - 1

Grikkir hafa komið á óvart í þessari keppni með frábærri vörn og vel skipulögðum leik og tel ég að þakka megi þýska þjálfaranum þeirra það að stórum hluta. Frakkar þykja hins vegar líklegastir til að vinna þessa keppni og núna fá þeir tækifæri til að sanna fyrir alvöru hvað í þeim býr, þar sem leikir þeirra til þessa hafa ekki verið allt of sannfærandi. Frakkar hafa sýnt algjöra yfirburði í fyrri leikjum þessara liða, þeir hafa unnið fimm af sex landsleikjum liðanna og sá sjötti endaði með jafntefli. Frakkar hafa samtals skorað 22 mörk á móti Grikkjum í þessum leikjum! Grikkland höfðu aldrei unnið leik í úrslitakeppni stórmóts, áður en þeir unnu Portúgala, en Frakkar hafa sigrað EM tvisvar og HM einu sinni, árið 1998.

Maður leiksins verður: Robert Pires
Maður leiksins: Angelos Charisteas

Svíþjóð 6 - 7 Holland
Raunveruleg úrslit: 4 - 5

Hér eru á ferð tvö stórskemmtileg lið og verður leikurinn vonandi í samræmi við það. Bæði lið rétt komust upp úr sínum riðlum, Svíar með því að jafna á elleftu stundu á móti Dönum og slá þannig Ítali út en Hollendingar með því að vinna Letta 3-0, en þar bjargaði 2-1 tap Þýskalands þeim upp úr riðlinum. Liðin tvö hafa keppt 18 landsleiki og eru Hollendingar yfir 8-7 í sigrum. Leikurinn endar í vítaspyrnukeppni eftir 2-2 jafntefli og þar munu Hollendingar sigra naumlega.

Maður leiksins verður: Ruud van Nistelrooy
Maður leiksins: Ruud van Nistelrooy

Tékkland 2 - 0 Danmörk
Raunveruleg úrslit: 3 - 0

Tékkar komust örugglega upp úr riðlinum með þrjá sigra og eru með sjálfstraustið í botni um þessar mundir. Það sýndi sig best á móti Þýskalandi þar sem þjálfarinn tefldi fram hálfgerðu varaliði en vann Þjóðverja samt 2-1. Danir, hinsvegar, rétt skriðu upp úr sínum riðli með eins marks innbyrðis markamun á móti Ítalíu. Ég held að Tékkar taki þennan leik nokkuð sannfærandi. Baros mun verða einn af markahæstu leikmönnum mótsins eftir þennan leik.

Maður leiksins verður: Milan Baros
Maður leiksins: Milan Baros

Endilega komið með ykkar spár líka!