http://www.mbl.is/mm/hm2006/frett.html?nid=1209060

Mbl.is
RÍKISSJÓNVARPIÐ hefur fengið sýningarrétt að heimsmeistarakeppninni í knattspyrnu árið 2010, en keppnin fer fram í Suður-Afríku. Samtök evrópskra sjónvarps- og útvarpsstöðva hafa gert samning um sýningarrétt á keppninni fyrir hönd ýmissa evrópskra sjónvarpsstöðva og var Ísland í hópi þeirra.

Að sögn Páls Magnússonar útvarpsstjóra stendur til að nýta þá möguleika sem stafræn tækni býður upp á og sýna keppnina á annarri tíðni líkt og 365 ljósvakamiðlar geri nú með Sýn og Sýn Extra. Þannig væri í raun ekki um nýja íþróttastöð að ræða heldur væri áskrifendum RÚV einfaldlega boðið upp á útsendingu frá einstökum viðburðum um leið og þeir gerast. Páll segir að RÚV sé hins vegar ekki búið að tryggja sér sýningarrétt á Evrópumeistaramótinu í knattspyrnu sem fer fram í Austurríki og Sviss að tveimur árum liðnum. Hvað varðar aðra íþróttaviðburði telur Páll að erfitt sé að feta hinn gullna meðalveg milli íþrótta og almenningssjónvarps. Það samræmist hins vegar ekki hagsmunum RÚV að sýna frá íþróttaviðburðum sem séu reknir á hreinum viðskiptalegum grundvelli. Þannig telur Páll fráleitt að RÚV færi að eltast við sýningarrétt á Meistaradeild Evrópu og fleiri knattspyrnudeildum sem reknar eru í viðskiptalegu augnamiði.

Spennandi framtíð
Nýjar aðferðir við dreifingu, svo sem stafræn tækni og svokölluð ip-dreifing, bjóða upp á mikla möguleika fyrir sjónvarpsstöð á borð við RÚV, að sögn Páls. Þannig verður til dæmis tæknilega framkvæmanlegt að koma allri dagskrárgerð RÚV í gegnum tíðina, bæði hvað varðar hljóð- og sjónvarp, á stafrænt form og gera almenningi kleift að nálgast efnið úr sófanum heima í stofu. Verkefnið yrði tímafrekt og kostnaðarsamt en að mati útvarpsstjóra er það vissulega verðugt. “Ég lít svo á að það sé ekki eingöngu hlutverk RÚV að varðveita þau menningarverðmæti sem hér hafa skapast heldur einnig að stuðla að dreifingu þeirra meðal almennings. Þessi nýja tækni gerir okkur það framkvæmanlegt,” segir Páll Magnússon.