Nú er nýlokið leik Suður Afríku og Slóveníu á HM (nei ég vaknaði ekki til að horfa á leikinn, ég er ekki farinn að sofa ennþá:)).

Fyrirfram bjóst ég ekki við sérlega merkilegum leik en raunin varð önnur. Strax á 4. mínútu komust Afríkumenn yfir með marki frá Siyabonga Nomvethe eftir aukaspyrnu frá Fortune, en Fortune hefur greinilega tekið að sér (eða verið úthlutað) leiðtogahlutverkið í liðinu. Markið var nokkuð skrautlegt en Nomvethe var einn á auðum sjó í teignum eftir að hafa hrist varnarmanninn skemmtilega af sér. Hann setti svo boltann inn með lærinu en ætlaði sér sennilega að skalla, sem sennilega hefði verið varið því markmaðurinn virtist eiga von á skalla.

Það var gaman að horfa á S-Afríku spila þennan leik. Margir leikmannanna eru gríðarlega leiknir með boltann og taka marga fallega snúninga og brögð sem gefa leiknum óneitanlega meira skemmtanagildi. Leikmenn S-Afríku voru einnig mun ákveðnari í alla bolta og barátta, leikgleði og góður liðsandi skein úr hverju andliti, og það verður áhugavert að sjá hvernig liðinu reiðir af á mótinu.

Slóvenar voru hins vegar ósköp andlausir en Milan Osterc hressti aðeins uppá leik þeirra þegar hann kom inná (40. mínútu) en þeir tóku samt ekki almennilega við sér fyrr en í kringum 70. mínútu, og náðu þá skoti á rammann… S-Afríkumenn voru hins vegar gríðarlega léttleikandi og áttu þennan sigur fyllilega skilinn.
_ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _