Annar leikurinn í A-riðli var háður á Ulsan leikvanginum í Kóreu í morgun(1.júní).
Leikurinn byrjaði heldur rólega en Úrúgvæarnir voru þó heldur sterkari í byrjun leiksins. Leikmönnum gekk frekar illa að skapa sér færi en það var mikil barátta í leiknum. Danirnir voru óheppnir að skora ekki á 13. mínútu þegar Ebbe Sand skallaði í jörðina og boltinn lenti í slánni. Á síðustu mínútu fyrri hálfleiksins skoruðu síðan Danirnir eftir góða sókn, Jesper Grönkjær fór upp vinstra megin og gaf góða sendingu á “Íslendinginn” Jon Dahl Tomasson sem skoraði með fínu skot í nærstöng.
Úrúgvæar byjuðu seinni hálfleikinn af miklum krafti og á 47. mínútu skoraði Dario Rodriguez frábært mark, hann tók boltann á lofti og skoraði alveg upp í samskeytin. Þetta mark kemur örugglega til greina sem besta mark keppninnar.
En þetta mark dugði Úrúgvæum ekki því að eftir að liðin hafi skipst á að sækja skallaði Jon Dahl í slána og inn á 83. mínútu eftir góða sendingu frá Martin Jörgensen.
Leiknum lauk því með 2-1 sigri Dana í frekar jöfnum leik og eru Danir í efsta sæti riðilssins ásamt Senegölum.