Jæja HM bara alveg að bresta á? Af því tilefni er upplagt að setja fram tillögu að draumastemminguna:

Í fyrsta lagi er skylda að sjá ALLA leikina. Þegar tveir leikir verða á sama tíma þá er skylda að skipta ört á milli Sýnar og Stöðvar 2 og ná öllu í báðum leikjum. Auðvitað verður líka að sjá alla leikina í beinni sem þýðir að menn verða að vakna eldsnemma á morgnana og tilkynna sig veika alla morgna.

Bjór er skylda. Að vísu þýðir það að menn verða komnir vel í glas á hádegi á virkum dögum en skítt með það. Bjór og snakk í morgunverð alla leikjadaga. Einnig er skylda að sjá alla þætti sem taka saman helstu viðburði leikjanna til að vera vel með á nótunum í umræðunni.

Veðmál fylgja alltaf svona keppnum. Menn eiga að vera með marga þúsundkalla í pottinum. Veðmál fyrir hvern leik eru líka skylda. Þau krydda upp á tilveruna og tryggja spennandi leik. Ef menn eru ekki tilbúnir að leggja almennilega undir þá eru þeir aumingjar og óíþróttamannslegir í anda.

Fylgihlutir eru líka nauðsynlegir. HM-bolir og HM-bjórkönnur eiga að vera á hverju menningarheimili í sumar.

En hvað svo sem menn gera og hvernig þeir haga sér yfir HM-hátíðina þá er alveg ljóst að þessi keppni verður ofsi og endalaust stuð! Ég hlakka mikið til og vona að enginn missi af stemmingunni sem alltaf fylgir HM í fótbolta - óháð tíma sólarhringsins!

Góða skemmtun!