HM 2006 – Hvítklæddu Riddararnir: Mín Upplifun Sumir gætu bent mér á að þessi grein kemur dáldið seint, en hey… mér er sama, ég var bara rétt í þessu að jafna mig eftir Heimsmeistaramótið. Og hér kemur mín ræma sem ég ætla að reyna að fylla af heimskulegum lýsingarorðum svo þið sjáið öll hvað ég er klár.

Heimsmeistarakeppnin í knattspyrnu er sennilega einn stærsti íþróttaviðburður heims. Augu heimsins hvíla á þessari keppni og eru alltaf miklar væntingar til hennar. Sjálfur lít ég á HM sem besta viðburð heims, punktur. Alltaf á fjagra ára fresti dreg ég fyrir öll gluggatjöld, fer í þægilegan sjónvarpsgláps fatnað, kem mér vel fyrir, fyrir framan sjónvarpið og tek símann úr sambandi. Ég hef lagt það í vana undanfarnar keppnir að missa ekki af leik og er ég því í góðan rúman mánuð á fjagra ára fresti lokaður inni með ekkert nema bjór og símanúmer Dominos í hendi.

Fótbolta tekst alltaf að kalla fram það versta, eða besta, í mér. Ef vel gengur, kvarta nágrannarnir undan hávaða, ef illa gengur hringir einhver á lögregluna. Og þótt hitinn er mikill þegar ég horf á mína heitt elskuðu Manchester United leikmenn þegar Enska Deildin er á fullu þá er ég talsvert verri þegar það kemur að Þjóðverjum á Heimsmeistaramótinu. Það mætti segja að þessi tvö lið eru mitt líf og yndi og hef ég haldið með þeim frá því að ég man eftir mér og þess vegna alltaf spennandi að fylgjast með þeim spila.

Opnunarleikur mótsins var viðureign milli Þýskalands og Kosta Ríka, og þar sem Þýskaland er jú mitt lið var spennan mikil. Ég var hrifinn af ferskleikanum sem kom með Klinsmann og var ég spenntur að sjá hvernig honum myndi ganga á þessu stórmóti. Fyrir leik var að sjálfsögðu farið í Þýsku landslið happa treyjuna (treyjan sem liðið keppti í 1990, árið sem þeir báru sigur úr býtum), sett á sig Þýsku landslið derhúfuna (sem ég keypti á Mallorca 1998) og farið með nokkrar bænir.

Leikurinn byrjaði geysi vel og kom gullfallegt mark frá Philip Lahm strax á sjöttu mínútu. Því fylgdi að sjálfsögðu hinum standard fagnaðarlátum en ég horfði einmitt á þennan leik einn, ekki gerði það að verkum að það vantaði stemninguna.
Auðvitað varð ég svekktur og pirraður þegar Wanchope jafnaði nokkrum mínútum seinna, var þó helst svektur útí varnarmennina og þeirra misheppnuðu rangstæðis gildru. Það tók þó ekki nema aðrar fimm mínútur fyrir kónginn, Miroslav Klose að setja einn í netið og varð ég að sjálfsögðu himinlifandi og var með nógu mikil andskotans læti.
Og svo í seinni hálfleik skoraði Klose aftur, þessi þýska hetja sem fæddist ekki í þýskalandi! Glæsilegt! Auðvitað þurfti Wanchope að minka muninn, helvítið en það leið þó ekki á löngu fyrr en að Torsten Frings tryggði 4-2 sigur með gullfallegu marki. Frábær leikur, frábær dagur… Mótið var byrjað.

Ég hélt áfram að hundsa lífið sjálft til að fylgjast með keppninni. Kíkti kannski í vinnu ef tími gafst til og gerðist jafnvel það djarfur að fara í næstu verslun, þá einungis í þeim tilgangi að endurnýja bjór birgðirnar.

Næsti leikur minna manna var kannski ekki alveg sú markaveisla sem ég vonaðist eftir en við félagarnir vorum allir samankomnir til að fylgjast með ekta Þýskri loftárás. Hana fengum við ekki en við skemmtum okkur þó konunglega á 91. mínútu þegar Oliver Neuville kom tánni í boltann sem varð til þess að hann rann í netið. Ég hef alltaf verið hrifinn af Neuville, hann er svona lukkugripur, mér finnst alltaf eins og öruggur sigur sé í höfn þegar hann kemur inná enda gufuðu allar mínar jafnteflis áhyggjur upp þegar hann steig inná völlinn. Og viti menn, kempan skoraði meira að segja.

Ekvador leikurinn var þó meira að mínu skapi, tvö flott mörk frá kóngsa, Miroslav Klose. Öruggur leikmaður sem er ótrúlega slunginn með boltann og duglegur líka.. Algjört gull. Þriðja markið, sem tryggði okkar mönnum 3-0 sigur var þó sennilega það mikilvægasta því það kom hinum unga Lukas Podolski í gang og átti það heldur betur eftir að borga sig. Að sjálfsögðu var dansað, öskrað, veifað fánum og gert grín af andstæðingum út og eftir leikinn… Já, riðillinn unninn frábærlega.

Og þá var komið að 16 Liða úrslitunum. Lentu hetjurnar á móti Svíum þar og það tók okkur nú bara stuttar 12 mínútur að afgreiða þá. Mér hefur alltaf verið illa við Svíþjóð og var það alveg frábært að taka þá úr umferðu svona auðveldlega. Leiðinlegir búningar, leiðinlegt fólk, leiðinlegir knattspyrnumenn, leiðinlegt land… Og Poddinn setti inn 2, gerist varla betra en það. Að sjálfsögðu með fullri virðingu fyrir Svíum, ég læt allt flakka, móðgandi eður ei, þegar knattspyrna er umræðuefnið.

Og þá var komið að drauma úrslitaleiknum, sem var samt einungis 8 Liða úrslitaleikur. Það höfðu margir óskað sér þessi tvö lið í úrslitum og var leikurinn nógu spennandi og krassandi til að vera það. Sennilega harðasti og mest spennandi leikur mótsins. Það var jú mikið talað um það fyrir mót að Þjóðverjar ættu litla möguleika á móti stórliði og núna var tími til að keppa við eitt sigurstranglegasta lið mótsins… Argentínu. Þessi leikur mun alltaf hafa sögulegt gildi fyrir mig, ég þarf bara að heyra minnst á hann og ég fæ gæsahúð. Þessi leikur fer á söguspjöldin, ekki spurning. Ég hóaði í nokkra einstaklinga og átti að horfa á leikinn saman, vorum við tilbúin að vera með læti en það var nánast algjör þögn allan fyrri hálfleikin. Spennan var gífurleg. Við vorum nokkur með Þjóðverjum og hinir studdu Argentínu og því smá rígur á meðan leiknum stóð. Mark Roberto Ayala kom flestum á óvart og að sjálfsögu var mikið fagnað hinum megin á sófanum. Sjálfur varð ég bandillur og var eins og heimurinn hefði hrunið, mér varð hálf flökurt og ég varð hálf smeykur. En ég hafði þó fulla trú á mínum mönnum og treysti þess vegna á að þeim tækist að jafna. Mínúturnar héldu áfram að líða og fíflin hinum meginn á sófanum voru farin að syngja. Svo, á 80. mínútu gerðist það. Ballack gefur fyrir, Borowski skallar hann áfram og Klose setur hann inn eins og honum er líkast… með skalla.

Ég hef tvisvar orðið hræddur um að fá hjartaáfall við áhorf á knattspyrnuleik. 26. Maí 1999 var fyrra skiptið. Úrslitaleikur Meistarakeppni Evrópu, Bayern Munchen og Manchester United að keppa. Munchen komast yfir strax á 6. mínútu og stefndi allt í Þýskan sigur en eftir rúmlega 90. mínútna leik jafnaði Teddy Sheringham og svo góðum 30-40 sekúndum síðar setti Solskjær boltann í netið. United unnu 2-1. Ég var svo þreyttur eftir leikinn að ég átti í erfiðleikum með að hreyfa mig. Þá er ég að sjálfsögðu að vitna í hversu ánægður ég var.

Þegar Klose jafnaði gegn Argentínu missti ég mig, þetta var svo frábært. Mér fannst eins og við hefðum unnið mótið og að Ballack væri að taka við bikarnum eftirsótta. Þetta var frábært, ég fagnaði vel og lengi og lætin voru svo gífurleg að ég var hræddur um að lögreglan myndi banka uppá hjá okkur. Sjaldan sem ég hef verið jafn ánægður og þótt ég er oft grófur ólátabelgur í hita leiksins þá var þetta sannarlega í anda úrslitaleiks Meistarakeppni Evrópu 99, ekta fagn fylgir svona marki. Jæja, allt í lagi, kannski ekki alveg. Þetta voru nú einu sinni bara 8-Liða úrslitin, en samt… Frábær stund. – Ok, ég viðurkenni það… Þetta er heimskulegur samanburður, en eitthvað verð ég að segja.

Augljóslega var þetta of gott til að vera satt. Þýska landslið hafði sigrað hjörtu þjóðarinnar (og Guð einn veit af hverju Þjóðverjar hafa ávalt svona litla trú á liðinu sínu) og allt stefndi í að hið fyrrverandi Þriðja Ríki myndi hneppna bikarinn eftirsótta. En svo varð ekki, ó nei. Það var eitt sem stóð á milli Þýska stálsins og Heimsmeistaratitlinum. Já, þjóðin sem fann upp pizzuna (og Guð blessi þá fyrir það). Þú sérð, það að finna upp pizzuna og spagettíið var ekki nóg fyrir þessa síðhærðu, bláklæddu vitleysinga. Þeir vildu fá meira, meira, meira, meira. Menn með völd vilja meiri völd, svona er þetta bara.

Vælið í mér eins og þið viljið, en það sem ég er að fara að segja er heilagur sannleikurinn: Super Mario og félagar voru heppnir. Ég er alls ekki að taka sigurinn frá þeim, þetta var harður og hnífjafn leikur og gat hann farið á báða vegu. En að setja boltann svona í netið nokkrum sekúndunum fyrir leikslok í framlengingu.. Uss! Ég meina, tók einhver eftir seinna markinu? Sérstaklega þar sem líkurnar voru á hlið Hvítklæddu riddarana ef þetta hefði farið í vítaspyrnukeppni. Enda Þýska liðið almennt tiltölulega öruggt í þeirri deild.

Auðvitað var þetta fúlt, mér datt ýmist í hug… Ein hugmyndin var að fleygja sjálfum mér útum gluggann, en það hefði gert lítið gagn hér á fyrstu hæð. Önnur hugmyndin var að henda sessunaut mínum útum gluggann sem var kominn á hnén, hágrátandi af gleði. Fallið hefði sennilega drepið hann þar sem hann var í sjöunda himni.. Og fyrir ykkur sem ekki vitið, þá er það býsna hátt. Ég meina, lítið upp til skýjanna og margfaldið með 7. En það hefði samt hentað illa þar sem hann var með bjórinn, þannig að ég varð að taka tillit til þess.

Þannig að á endanum varð ég að láta mér nægja þunglyndi í nokkra daga. Forðast móður mína sem er u.þ.b jafn hrifinn af Ítalíu og ég er af Þýskalandi.
Það er ekki þýskur blóðdropi sem rennur um æðar mínar en mér leið virkilega eins ég hafði tapað, mitt land hafði tapað. Þjóðarstoltið var kramið af síðhærðum telpum sem kunnu nokkur brögð með bolta… Niðurlægingin!

En jæja, þetta var ekki búið enn. Við gátum ennþá hreppt Lúða verðlaunin… Bronsið var í húfi, sem er jú bara einum leik frá gullinu ;)

Fyrir mótið var Portúgal ein af þeim þjóðum sem mig langaði til að sjá fara langt… Lítið vissi ég þá. Álit mitt á þeim snarféll eftir fyrstu leikina þeirra og guð hvað það hlakkaði í mér þegar Frakkar stigu ofan á þær litlu vonir sem þeir höfðum um titilinn.

Það var ágætt að taka Bronsið… Tja, auðvitað var það grautfúlt. Auðvitað vildi maður fara alla leið en það var samt ágætt að taka Ronaldo og gengi. Reyndar fannst mér leiðinlegt að sjá Kahn fá mark á sig, hann hefur lengi verið í uppáhaldi hjá mér og hefði verið gaman að sjá hann halda hreinu. En sigur er sigur. Ég verð að viðurkenna að ég var orðinn meira en pirraður á Schweinsteiger enda fannst mér hann alls ekki vera að standa sig á mótinu. Átti ágætis ræmur en gerði of mörg klaufamistök og skemmdi of margar lofandi sóknir… Hinsvegar var frábært að sjá hann í leiknum gegn Portúgal. Setti sjálfur inn tvö falleg mörk og svo átti hann jú meira og minna hitt markið. Ekki drauma endirinn á þessum stóra viðburði, en ég var samt nokkuð sáttur. Það var jafnvel aðeins þægilegra að sigra lokaleikinn heldur en að tapa honum eins og gerðist árið 2002.

Og svo byrjuðu bjöllur að hljóma aftur… Og þá voru þeir tveir.

Þá var komið að úrslitaleiknum. Margir veltu sér uppúr því hvernig hann myndi enda, það er þó afar líklegt að engum hafi dottið í hug að það sem gerðist, myndi í raun og veru gerast. Eftir Ítalía – Þýskaland leikinn var mér að sjálfsögðu meinilla við bláu skrattana, en ég var þó orðinn temmilega rólegur þegar að úrslitaleiknum kom. Ég hugsaði með mér, er ekki betra að geta sagt; Þeir einu sem unnu mína menn urðu heimsmeistarar. Það er hálf ömurlegt að tapa gegn liði sem getur svo ekki drullast til að klára þetta. Allavega sá ég dæmið svona… Á hinn bóginn langaði mig til að sjá Frakkana taka þetta. Í mínum augum hefði það ekki orðið Franskur sigur, heldur Zidane sigur. Mér gat ekki staðið meira á sama um Arsenal helvítið eða hinar Frönsku gellurnar… Hinsvegar hef ég alltaf verið hrifinn af Zidane, enda er hann ekki fæddur í Frakklandi. Frír frá spillingu og klisju. Listamenning Frakklands er álíka klisjukennd í dag og Hollywood.

Ekki lét ég mér detta í hug að hann myndi gera það sem hann gerði. Datt nokkrum manni það í hug? Ég held ekki.

Ég meina, okey.. Við vitum alveg að Ítalir urðu heimsmeistarar, en erum einhverjum í raun og veru sama? Ég meina, man nokkur maður eftir því hvernig þetta endaði? Fólk á ekki eftir að líta til baka og segja; “Ítalir urðu heimsmeistarar árið 2006.” – Ónei gott fólk, menn eiga eftir að líta til baka og votta 9. Júli virðingu en sá dagur mun brátt vera skírður í hausinn á Zidane. Já, 9. Júlí 2006 mun vera minnistæður næstu ár, næstu ártugi, næstu árhundruð þess vegna. Dagurinn sem einhver besti knattspyrnumaður allra tíma endaði feril sinn á skalla, og ekki bara venjulegum skalla. Heldur banvænum eitur skalla í bringuna á Ítala, sem fór ljótum orðum um móður hans, eða systir hans… Hverjum er ekki sama hvað hann sagði? Það sem skiptir máli er að Zidane tók hann niður! Frábær skalli!

Sumir hata Zidane, sumir elska hann, aðrir tóku ekki eftir neinum breytingum í félagslegu umhverfi sínu. Sjálfur fannst mér þetta svo hrottalega heimskulegt af honum, að þetta var frábært! Ég er ekki að segja að hann breytti rétt, ég er einfaldlega að segja að Zidane mun verða “household” nafn héðan af. Það man enginn hver vann þennan leik, það muna þó allir eftir Zidane og hans loka sekúndum í knattspyrnu. Kannski var þetta allt planað hjá honum, hann vildi hætta með stæl; Stela allri athyglinni… Við munum aldrei vita það, en eitt er víst. Það er tvennt í heiminum í dag sem mun eignast cult aðdáanda hóp í framtíðinni.

Annað er línan “I want these motherfucking snakes of this motherfucking plane.” – Þið vitið öll hvað hitt er.

Hvað mitt heitt elskaða Þýska, vöðvastælta knattspyrnulið varðar… Við verðum heimsmeistarar í svörtustu Afríku árið 2010… Mig hefur dreymt það.