Zinedine Zidane er hugsanlega einn flinkasti fótboltamaður sem heimurinn hefur nokkurn tímann séð. Gæðin eru vissulega ekki á “maradona” stigi en það munar heldur ekki miklu á. Zidane hefur átt magnaðan feril og leikið meðal annars með Juventus og Real Madrid þar sem hann hefur verið eins og kóngur í ríki sínu. Hátindur ferilsins var eflaust náð sumarið 1998 þegar Zidane leiddi franska landsliðið til sigurs á HM. Brassarnir voru sigraðir í úrslitum og Zidane lék svo vel að það væri réttlætanlegt að segja að hann hafi klárað leikinn upp á sínar eigin spýtur. Ekki ósvipað hinum fyrrnefnda Maradona á HM '86.

Það er hinsvegar málefni sem fæstir vita um og ég ætla að gera að umfjöllunarefni greinar minnar. Tengist þetta Zinedine Zidane, franska landsliðinu og HM keppninni sem var nú að ljúka. Sterkar raddir hafa verið á sveimi sem segja allar að Zidane sé í raun miklu meira en bara leikmaður landsliðsins. Það virðist allt benda til þess að Zidane stjórni hálfpartinn hópnum en ekki Raymond Domenech, þjálfari franska landsliðsins.

Fyrir ekki svo löngu síðan ákvað ZZ að leggja landsliðskóna á hilluna og tóku félagar hans, Makelele og Thuram, sömu ákvörðun. Þarna má segja að hafi verið rifið úr franska landsliðinu stærstu líffærin enda hafa þessir þrír verið lykilmenn liðsins í mörg ár. Thuram í hjarta miðvarnarinnar og Maka og ZZ á miðri miðjunni; annar þeirra talinn vera besti varnartengiliður í heimi og hinn verið valinn besti leikmaður heims.

Má rekja þessa ákvörðun þremenninganna til þess að ráðinn var nýr þjálfari landsliðsins. Margir segja að ástæðan fyrir því að þremenningarnir hættu að spila með landsliðinu hafi verið ráðning Raymonds. Þeir hafi hinsvegar ákveðið, undir stjórn Zidane, að snúa aftur og spila með liðinu og ákveðið að vera ekkert að spá í Raymond. Það vekur auðvitað mikla athygli að Makelele sneri aftur eftir að hafa átt samtal við Zidane en ekki sjálfan þjálfarann. Svona vekur aðeins upp spurningar um hver sé í raun og veru leiðtogi franska landsliðins.

Franskir fjölmiðlar hafa verið duglegir að velta þessum málum fyrir sér og virðist sem þeir haldi flestir að Zidane stjórni þessu. Raymond virðist ekki láta þetta hafa mikil áhrif á sig, tekur þessu bara og þykist stjórna.

Zinedine Zidane skallaði Materazzi í brjóstkassan í kvöld því honum er alveg sama um afleiðingarnar. Hann er sjálfselskur og spilar fyrir sjálfan sig. Að 34 ára reynslubolti skuli taka uppá svona fíflaskap í sínum seinasta landsleik er út í hött. Zidane ætti að vera nógu sjóaður í þessum bransa til að vita að maður lætur ekki æsa sig svona upp. Ekki í venjulegum deildarleik og ALLS EKKI í úrslitaleik HM (sem er stærsti leikur sem fótboltamaður getur spilað).

Zidane sýndi samherjum sínum óvirðingu og honum var alveg sama. Zidane sér sjálfan sig sem leiðtoga landsliðsins.

P.S:
Materazzi er fáviti en Zidane er sjálfur ekki prúður leikmaður. Ég man nú bara eftir atviki fyrir nokkrum árum. Þá var Zidane að spila með Juventus og jújú, kallinn tók bara einn andstæðing og skallaði hann beint í andlitið og fékk þriggja leikja bann.