Tveir leikir fóru fram í D-riðli Euro 2004 í gær og var annar þeirra hin mesta skemmtun á meðan hinn var frekar bragðdaufur.

Þjóðverjar hefðu komið sér í góða stöðu fyrir lokaumferðina með sigri á Lettum en annað kom á daginn. Lettar áttu góðan leik líkt og á móti Tékkum en uppskáru í þetta skiptið 1 stig. Jafntefli frekar sanngjörn úrslit, Þjóðverjar fengu góð færi en Lettar áttu skilið að fá 2 víti í leiknum. Þjóðverjar voru slakir í leiknum og verða að teljast ólíklegir til að gera einhverja hluti á þessu móti. Lettar hafa verið sprækir en eru líklega sprungnir á limminu.

Hollendingar og Tékkar áttust við í seinni leik dagsins og var sá leikur annar tveggja bestu leikja í keppninni. Frábær leikur og ef fólk sér ekki ástæðu til að snúa sér að tækjunum núna veit ég ekki hvað. Bráðfjörugur leikur með fullt af færum og rétt úrslit hefðu verið í kringum 5-5. Hollendingar komust í 2-0 eftir um 20 mín. leik en Koller svaraði fyrir Tékka skömmu síðar. Advocaat þjálfari Hollendinga gerði síðan taktískar breytingar á liði sínu og lét liðið pakka í vörn. Það hefur aldrei farið Hollendingum að pakka í vörn enda töpuðu þeir leiknum á endanum 2-3. Baros skoraði glæsilegt mark og jafnaði og undir lokin skoraði Smicer sigurmarkið. Bouma og Nistelrooy höfðu komið Hollendingum í 2-0.

Nokkur umdeild atvik gerðust í leiknum.
Fyrst ber að nefna mark Nistelrooys. Hann var rangstæður þegar Robben fékk sendingu inn fyrir, kom ekki við sögu þar, og því réttilega ekki dæmdur rangstæður. Síðan kom hitt, Nistelrooy fékk boltann frá Robben (báðir voru fyrir innan vörnina þannig að engin rangstæða þar) og skoraði. Þarna hagnaðist Nistelrooy hins vegar á því að vera fyrir innan þarna áður því hann hafði forskot á tékknesku varnarmennina í boltann. Þarna liggur mikill vafi um hvort á að dæma rangstöðu. Dæmið fyrir ykkur sjálf.
Svo áttu Hollendingar rétt á vítaspyrnu í fyrri hálfleik þegar Ujfalusi tók Nistelrooy glímutökum og þarna var á ferðinni slæm dómgæsla og var hún of oft Tékkum í hag í þessum leik.
Nedved fiskaði síðan Heitinga útaf með 2 gul seint í leiknum. Nedved á fleygiferð með boltann, veit af Heitinga og er fljótur að detta við fyrstu snertingu frá Heitinga.

Eftir þessi úrslit er staðan í riðlinum ansi áhugaverð. Tékkar eru komnir áfram með 6 stig, Þjóðverjar hafa 2 og Hollendingar og Lettar 1 hvor. Ef Lettar og Tékkar vinna í lokaumferðinni fara Lettar áfram með Tékkum. Ef Þjóðverjar og Hollendingar vinna fara Þjóðverjar áfram. Og svo framvegis. Þið vitið þetta. En áhugaverð staða kemur hins vegar upp ef Tékkar vinna Þjóðverja og Hollendingar gera jafntefli við Letta. Þá eru Þjóðverjar, Hollendingar og Lettar allir með 2 stig. Leikir þessara þriggja þjóða enduðu allir með jafntefli þannig að markatala í þeim leikjum ræður. Holland-Lettland 0-0=Árangur í undankeppni HM og EM ræður hvort Holland eða Þýskaland fer áfram. Holland-Lettland 1-1, 2-2 o.sv.frv.= Holland áfram.

Það verður því spennandi að fylgjast með EM á miðvikudaginn.