Í tilefni orðakasta Höskuldar í Framsókn legg ég til að létt verði verulega á skyldum þingmanna og ráðherra. Öll samskipti sem þingmenn eiga í krafti starfs síns verði gerð opinber á grundvelli vefsíðu byggðri á opnum kóða. Þar á hver landsmaður aðgang og getur tjáð sig og kosið um ákvarðanir sem þinginu verður skylt að taka, að gefnum forsendum á borð við lágmarksatkvæðisfjölda og þess háttar. Samkvæmt nýlegri greinagerð Hagstofunnar eru 90% heimila Íslands nettengd, og þyrfti að leggja sig í líma við að netvæða útistandandi tíundahlutann á meðan kerfinu væri komið í gang.

Hvað varðar samræður sem hlíta þagnarskyldu, til dæmis samningaviðræður, þar verða skipaðar nefndir sem svara til almennings til jafns við þingheim.

Dregið verður saman í umsvifum Alþingis, svo þar starfi sem fæstir til viðbótar við þingmenn sem koma ákvörðunum almennings í verk (og gagnrýna þær á lagalegum forsendum) og endurskoðenda á vegum almennings sem athuga að það sé í raun sannri það sem á sér stað. Að auki þarf hóp lögfræðinga til að gera grein fyrir skynsemi vissra aðgerða, og rökstyðja þá greinagerð.

Mótun tillagna almennings færi fram á nokkrum stigum, frumstigs (þar sem stór fjöldi hugmynda yrði flokkaður í gagnlegar og síður gagnlegar tillögur með kosningakerfi á borð við það á reddit), mótunarstigs (þar sem kosinn hópur lögfræðinga myndi aðstoða almenning með fjölda smærri kosninga, framkvæmdum með svipuðum hætti og þær á frumstigi, hvernig tillagan skal mótuð) og kosningastigs, þar sem almenningur kýs hvort senda skuli tillöguna til þingheims til fullmótunar. Slíkar kosningar myndu fara fram reglulega, og á nokkurra daga tímabili, svo allir geti tekið þátt.

Persónukjör verður innleitt, og hefur almenningur vald á að ráða og reka lögmenn (og heimspekinga, siðfræðinga, hagfræðinga eða hvað sem almenningi dettur í hug) til að aðstoða og hafa umsjón með þessu ferli.

Hver sjálfráða aðili á landinu (orð sem almenningur skilgreinir þegar hann hefur völdin) fær aðgang að þessu kerfi með svipuðum hætti og að einkabanka. (Ekki endilega með auðkennislykli, en einhverju öruggu og tiltölulega óbrigðulu.)