Frábær grein af Kreml.is ég vona að ég brjóti enginn lög með því að sitja þetta hérna. Enn sannast ágæti ESB. LOKSINS er komin risi sem getur tekist á við Bandaríkinn….

En greinin er eftirhljóðandi…..


Það er sjálfsagt að bera í bakkafullan lækinn að fordæma ríkisstjórn Ísraels fyrir þá siðlausu hegðun sem hún hefur tileinkað sér í samskiptum sínum við Palestínumenn. Hin andstyggilegu hermdarverk sem framin hafa verið af Palestínumönnum frá því hin nýja intifada hófst eru löngu fallin í skuggann af ódæðisverkum ríkisstjórnar Ariels Sharons, sem allir sómakærir Ísraelsmenn hljóta að blygðast sín einlæglega fyrir. Ríkisstjórn hans er að takast að svipta Ísraelsríki þeim snefil af samúð sem það hefur notið hjá þeim Vesturlandabúum sem láta ekki beinlínis blint Arabahatur stjórna tilfinningum sínum, eins og raunin virðist vera með suma háttsetta ráðamenn í Bandaríkjunum samkvæmt því er skilja má á fréttum síðustu daga.

Svo virðist sem Sharon þessi sé hreinræktað illmenni sem ber enga virðingu fyrir mannslífum, stjórnast af blindu kynþáttahatri og notar alla þá nútímatækni sem honum stendur til boða til að ganga milli bols og höfuðs á varnarlausum “óvini” sínum. Manni kæmi helst til hugar að Adolf Hitler væri fyrir gráglettni örlaganna endurfæddur sem Ísraelsmaður, ef Sharon væri ekki fæddur fyrir dauða Hitlers.

Sem betur fer virðist Evrópusambandið vera að öðlast viljastyrk og sjálfsvirðingu í utanríkismálum og hefur það tekið allt annan pól í hæðina en Bandaríkjamenn, sem ætla sér seint að átta sig á illverkum skjólstæðinga sinna í landinu helga. Evrópusambandið hefur sett fram kröfu um stofnun palestínsks ríkis og fordæmir hinar forkastanlegu aðgerðir Ísraelsstjórnar. Í höfuðborg Evrópusambandsins er verið að undirbúa málshöfðun á hendur Sharon fyrir stríðsglæpi.

Jafnvel utanríkisráðherra litla Íslands hefur látið málið til sín taka og vill bjóða Arafat úr stofufangelsinu í Ramallah og upp á klakann. Við sjáum sjálfsagt engar friðarviðræður meðan Sharon er enn við völd, en Íslendingar ættu að leggja sitt af mörkum í þessum efnum og bjóða hér aðstöðu til friðarviðræðna þegar þar að kemur. Lýðveldið Ísland er jú hvorki hluti af Bandaríkjunum né Evrópusambandinu, en nátengt þeim báðum og gæti því hentað vel sem slíkur staður. Þingvellir koma í hugann.