Ég tók þessa grein af múrnum, hún er bara of merkileg til að þið látið hana fram hjá ykkur fara.

——-

Minna má gagn gera

24.1.2002

Kannski finnst einhverjum landsmönnum það vera skemmtileg tilhugsun að geta seinna meir sagst hafa lifað þá tíma þegar nánast var hlegið að fólki sem minntist á Genfar-sáttmálana í sambandi við styrjaldir. Þeim sem ekki eru þeirrar skoðunar finnst ef til vill eins og ráðamönnum nú um stundir hljóti að vera ókunnugt um 55. greinina. Samkvæmt henni skulu stríðsaðilar ávallt gæta þess eftir fremsta megni að valda ekki víðtækum og alvarlegum umhverfisspjöllum sem geti haft langvarandi áhrif.

Hvernig lítur þessi hlið málsins út í Afghanistan, fyrir utan allar þær mannlegu þjáningar sem þar hafa hlotist af stríðsátökunum? Svo virðist sem Bandaríkin og Bretland hafi tekið upp þráðinn þar sem Sovétherinn, Talibanar og Norðurbandalagið slepptu honum í eyðileggingu þessa sárfátæka lands.

Klasasprengjum hefur verið látið rigna yfir Afghanistan, m.a. þeirri nýjustu og stærstu í vopnabúri Bandaríkjahers. Fyrir áhugamenn um falleg gælunöfn og aðra vini “Rummys”, stríðsmálaráðherra Bush, skal geta þess að sprengjan sú nefnist BLU-82 en er kölluð “Big Blue” af vinum sínum. BLU-82 dreifir sprengjuflísunum yfir svæði á stærð við fimm fótboltavelli og skilur eftir sig risavaxna gíga. BLU-82 er stærsta og áhrifaríkasta sprengja sem völ er á að kjarnorkusprengjum slepptum.

Talið hefur verið að í Afghanistan séu allt að 10 milljón jarðsprengjur frá dögum fyrri stríða. Sú tala skipar Afghanistan á bekk með t.d. Kambódíu, Angóla og Mózambík sem öll glíma við stórkostleg vandamál vegna jarðsprengjunotkunar. Afghanir þurftu á flestu öðru að halda en skæðadrífu af klasasprengjum sem alltaf skilja eftir aragrúa af ósprungnum smærri sprengjum. Þær munu taka sinn toll í framtíðinni, m.a. af börnum í fótbolta og fólki sem reynir að stunda búskap sér til lífsviðurværis.

Kunnuglegar deilur eru komnar upp um það hvort sneytt úran hafi verið notað í Afghanistan. Hverjir skyldu hafa rétt fyrir sér í þetta skipti? Hverjir hafa sagt satt og hverjir ekki um sneytt úran til þessa? Rannsókn sem gerð var á vegum háskólans í Waterloo, Ontario, leiddi í ljós að sneytt úran hefur orsakað banvænt krabbamein meðal tuga ef ekki hundruða þúsunda meðal bandarískra hermanna og íraskra borgara. Þó óvinurinn sé löngu týndur, þ.e.a.s. sá sem ekki stakk af á skellinöðru, heldur stríðið áfram. Og eins og George Bush hefur sjálfur sagt, “til að kenna þeim þá lexíu að það borgar sig ekki að abbast upp á Bandaríkjamenn”.
sh

——-

Tekið af múrnum (http://www.murinn.is/) þann 25. jan 2002. Höfundur er Steinþór Heiðarsson.

Iluvata