Eftirfarandi grein birtist á politik.is nú nýlega og er þar meðal annars reynt að tengja Flokk Framfarasinna við nasisma og rasisma (með tilheyrandi myndbirtingu og smá texta).

Í þessari grein er bara sagður hálfur sannleikur eins og sjá má í svari Flokks Framfarasinna við greininni á www.framfarir.net og greinilegt að þessum jafnaðarmönnum er ekki annt um eigin fána né nokkuð sem kallast Íslenskt.
—————————————————————-


Verðum við sótt til saka fyrir þessa myndafölsun?
Mánudagurinn, 10.desember 2001
Ritstjórnargrein

Enn eru þeir margir sem virðast meta tákn og prjál mikils. Á vefriti Flokks framfarasinna má lesa grein eftir formann flokksins þar sem hann segir stoltur frá því að vegna borgaralegra ábendinga til lögreglu, m.a. frá Flokki framfarasinna, sé tónlistarmyndband Bubba Morthens, „Nýbúinn“, nú til rannsóknar vegna hugsanlegrar vanvirðingar og misnotkunar á íslenska þjóðfánanum. Myndbandið er djörf ádeila á rasisma.

Prjál metið meira en tjáningarfrelsið
Í 73. grein stjórnarskrár Íslendinga á skoðana- og tjáningarfrelsi að vera tryggt. „Allir eru frjálsir skoðana sinna og sannfæringar. Hver maður á rétt á að láta í ljós hugsanir sínar, en ábyrgjast verður hann þær fyrir dómi. Ritskoðun og aðrar sambærilegar tálmanir á tjáningafrelsi má aldrei í lög leiða.“ Menn geta tjáð skoðanir sínar á ýmsan hátt, í ræðu og riti, eða með táknrænni athöfn. Allir þessir tjáningarhættir eru jafnréttháir og njóta skýlausrar verndar í stjórnarskrá Íslands. Sumum virðist þó þykja meira vert um dauða hluti, tákn og prjál en tjáningarfrelsið sjálft, hornstein lýðræðisins.

Í lögum um þjóðfána Íslendinga segir að ekki megi óvirða þjóðfánann, hvorki í orði né verki. Í 95. grein íslenskra hegningarlaga er jafnframt lögð refsing við því að smána erlendan fána eða þjóðmerki. Fánalögin sem og 95. grein hegningarlaganna brjóta í bága við stjórnarskrá sem tryggja á tjáningarfrelsi. Lögin eru atlaga að mannréttindum. Þau ber að ógilda tafarlaust líkt og gert hefur verið við sambærileg ákvæði í refsilöggjöf nágrannaþjóða okkar.

Dæmdur fyrir að vanvirða hakakross
Þess eru dæmi að menn hafi verið dæmdir á grundvelli slíkrar lögleysu. Dómur yfir Aðalsteini Kristmundssyni, sem betur er þekktur sem Steinn Steinarr, mun vera sá kunnasti. Við þýska „vicekonsúlatið“ á Siglufirði var fánastöng og blakti þýski hakakrossfáninn við hún. Steinn Steinarr ásamt fleirum skar á fánasnúruna. Fánann rifu þeir síðan í sundur og tróðu á fánaslitrunum. Fyrir athæfið hlaut Steinn Steinarr tveggja mánaða fangelsisdóm. Nú þykir okkur þetta fáránleg dómsúrlausn.

Nú er svo bara að bíða og sjá hvort Flokkur framfarasinna muni greina lögreglu jafnstoltir frá myndinni hér að ofan sem ritstjóri Pólitíkur.is sauð saman, fyrst þeir töldu það borgaralega skyldu sína er Bubbi átti í hlut.

SS