Í fréttum í dag hlustaði ég á ræðustúf sem útvarpað var frá Alþingi þar sem Guðni Ágústson talaði um stjórn efnahagsmála. Hann skaut föstum skotum á ríkisstjórnarflokkana og sakaði um fjármálaóreiðu, vaxtaóstjórn og fl. Þetta er sjálfsagt allt satt og rétt hjá honum og það er náttúrulega óþolandi fyrir skuldsettar fjölskyldur og fyrirtæki landsins að búa við það vaxtarstig sem hér ríkir.
Það sem kemur mér aftur á móti spánskt fyrir sjónir er það að þessi ríkisstjórn hefur aðeins setið í hálft ár. Þar á undan sat flokkur Guðna við stjórnvölinn í ein 16 ár með Sjálfstæðisflokknum. Í valdatíð Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar var grunnur lagður að þeirri fjármálastefnu sem nú er keyrð. Framsóknarflokkurinn og Guðni þar með talinn bera talsverða ábyrgð á þeirri vaxtastefnu sem hér líðst. Engu að síður talar maðurinn eins og hann og hans félagar hafi hvergi komið nærri og þetta hafi bara gerst á síðustu 160 dögum. Svo virðist sem í Framsókn sé engin fortíð aðeins nútíð og framtíð, það sem gerðist í gær telst ekki með, er ekki til!