Kæru samhugar,
undanfarnar vikur hef ég lesið fjölda pósta varðandi Múslima og hversu ólík trúarbrögð þeirra eru okkar eigin og hversu frumstæð þau eru að hans mati.
Höfundur þessara pósta segist ekki vera kynþáttahatari og alls ekki hata múslima, heldur séu skoðanir þeirra svo ósamrýmanlegar okkar eigin að þeir geti ekki lifað í samfélagi við okkur.
Þessi rökræðuaðferð er afar einkennandi fyrir nýja stefnu í kynþáttahatri sem kölluð er nýrasismi.
Gamli rasisminn, sem byggðist á erfðafræðilegum yfirburðum hvíta kynstofnsins, er að deyja drottni sínum sökum aukinnar upplýsingar almennings. Það þýði hins vegar ekki að kynþáttafordómar hverfi, heldur breytist orðræðan einungis, menn leita að lúmskari leiðum til að sá eitri í hugsun góðra manna.
Nýjasta afsprengi rasismans er svokallaður nýrasismi, þar sem menn halda því fram að menning okkar vesturlandabúa sé æði, við höfum staðið fyrir flestum uppgötvunum og vísindaframförum í heimi, og “hinir” séu einfaldlega villimenn, afturhaldsseggir, aftur í öldum og ofbeldishneigð trúarbrögð og guðveithvað.
Nýrasistar segja gjarnan “Ég hef ekkert á móti Múslimum… Ég bara geri mér grein fyrir því að þeir geta ekki búið með okkur…”
Þetta er rasismi, engum blöðum um það að fletta. Menn geta dulbúið rasískar skoðanir sínar með orðum eins og “fræðimenn segja”, “vísindalegar rannsóknir leiddu í ljós”, “menning”, og “siðferði” en það felur á endanum ekki raunverulegan boðskap, sem er predikun fordóma og mismununar í samfélagi mannanna.
Ef múslimar eru svona rosalega forneskulegir og afturhaldssamir, hvers vegna heldur þá Salman Taimimi jól? Hvers vegna búa fjöldi góðra múslima á Íslandi og vinna margir hverjir í hátæknistörfum og stunda málþing og vísindaráðstefnur í hlutfallslega mun meiri mæli en Íslenskir samborgarar þeirra?
Ef þið vissuð hvað útlendingar á Íslandi eru duglegir í þátttöku í lýðræðislegu samfélagi myndi það koma ykkur á óvart og þið mynduð skammast ykkar lúmskt fyrir eigin leti.

Bestu Kveðjur,
Gé-Töfri