Sæl öll,

Eftir þessa miður skemmtilegu framkomu Vilmars þá gætir þess nokkuð hjá mönnum hér að þeir séu að hrósa manninum fyrir framkomu hans og að þetta hafi verið fyndið, hann sé mikilmenni og ég veit ekki hvað og hvað.

Ég verð nú bara að segja það að mér finnst þetta bara afskaplega lítið fyndið, hefði kannski verið það á öðrum vettvangi, en ekki hér. Ég tek persónulega þessa umræðu hér alvarlega og vil að hún sé sem mest málefnaleg og sú viðleitni að sigla undir fölsku flaggi og draga menn á asnaeyrunum flokkast bara einfaldlega ekki sem málefnaleg framkoma í mínu orðasafni. Heiðarleiki er einn af grunnþáttum þess að vera málefnalegur og það verður víst seint sagt að Vilmar kallinn hafi sýnt af sér slíka framkomu.

Manni virðist annars sem einhver vandræðagangur sé á sumum þeim sem áttu í orðaskaki við Vilmar og að þeir skammist sín jafnvel fyrir það að hafa verið narraðir með þessum hætti. En það er bara ekkert að því að verða fyrir því. Við sem erum búin að vera hér lengi á Huga og erum alla jafna málefnaleg í framkomu gerum einfaldlega ráð fyrir því að nýjir aðilar hegði sér á sama hátt enda eiga menn vart erindi hingað ætli þeir að stunda eitthvað skítkast. Það að ætla að menn komi heiðarlega fram, með ákveðnum fyrirvara þó, er því ekkert til að skammast sín fyrir heldur er það sjónarmið einmitt eitthvað sem á hrós skilið.

Ég held að menn verði því að átta sig á því hvaða skilaboðum þeir eru að koma á framfæri með því að hrósa mönnum fyrir svona framkomu eins og Vilmar gerðist sekur um. Menn eru einfaldlega, sennilega ómeðvitað, að samþykkja slíka framkomu með því að hrósa henni og með því að hvetja aðra til að koma eins fram. Viljum við virkilega að menn fari að stunda slíkt hér á Huga? Viljum við ekki málefnalega umræðu hér þar sem málin eru rædd af heiðarleika en ekki óheiðarleika? Ég persónulega er a.m.k. í hópi þeirra manna sem það vill.<br><br>Með kveðju,

Hjörtur J.
Með kveðju,