Eftir að herinn hélt heim á leið frá Reykjanesinu, hafa margir velt því fyrir sér hvernig vörnum landsins skuli vera háttað og enn fleiri sem hugsað hafa með sér hvort varnir séu nauðsynlegar. Sjálfstæðisflokkurinn er samkvæmur sjálfum sér og eftir að Bandaríkjastjórn gaf skít í þá og samstarf þeirra við ríkisstjórn, gengur flokkurinn slefandi, með Geir Haarde í forystu, á eftir þeim og biður stórveldið að skilja ekki litla tannlausa hvolpinn eftir varnalausan.
Sjálfum finnst mér það að þiggja varnir frá mest hötuðu þjóð heims eins og setja skotmark á Reykjavík. Er þá ekki betra að hafa engar varnir en það? En fyrir þá sem nauðsynlega þurfa varnir öryggis síns vegna væri þá ekki eðlilegra að líta til Evrópu, sem við erum jú partur af, og þiggja varnir þaðan. Eða leita beint til NATO?
Sumir segja að ef Bandaríkjaher hefði ekki sest að hér á sínum tíma værum við enn skítugasta og verst lyktandi þjóð í Evrópu. Það má vel vera og ætla ég ekki að þræta fyrir það hér, en Bandríkin þurfa ekki lengur á okkur að halda. Á sínum tíma vorum við afar mikilvægur hlekkur í vörnum þeirra gegn yfirvofandi ógn úr austri, en þeir tímar hafa liðið. Í dag standa varnir Bandaríkjanna af fyrirbyggjandi aðgerðum, innrásum og stríði á erlendri grund og litla Ísland hefur lítið sem ekkert hernaðarlegt, né viðskiptalegt, gildi fyrir þá í dag.
Er gott fyrir ljúfa, litla og veikburða hvolpinn að hanga með stóra hundinum sem reynir að hamast á öllum þeim tíkum sem hann langar til; urrandi og glefsandi í alla sem dirfast á hans yfirráðarsvæði; og fær þannig alla hina hundana á móti sér? Eða leika sér með hinum hundunum sem vilja hafa það gott og njóta lífsins? Svari hver fyrir sig.