Sjálfstæðisflokkurinn fékk 61.701 atkvæði eða 33,68% gildra atkvæða í kosningunum 2003.

Samkæmt þessum lýðræðislegu kosningum á flokkurinn að hafa 22 þingmenn. En nei nei, Sjálfstæðisflokkurinn hefur 23 þingmenn.

Hvað varð til þess að hlutföllinn breyttust? Einn maður ákvað að skipta um flokk og taka með sér sætið í leiðinni. Auðvitað er ekkert að því að menn skipti um skoðanir og skipti um flokk, en að menn geti gengið með sæti yfir í annan flokk er ekki mjög lýðræðislegt. Þetta er ekkert annað en spilling sem býður upp á frekari spillingu. Stjórnmálaflokkarnir gætu meira að segja keypt fleiri sæti með því að múta þingmönnum úr öðrum flokkum.

Þýðir þetta að það er hægt að fella stjórn á miðju kjörtímabili? Hvað myndi gerast ef t.d. 2 þingmenn frá Sjálfstæðisflokknum færðu sig yfir í Samfylkinguna? Er þá stjórnin fallin og Samfylkingin með umboð til að mynda nýja stjórn?

Ég held að eina leiðin til þess að koma í veg fyrir slíka spillingu er að hafa það þannig að sæti geti ekki farið á milli flokka í miðju kjörtímabili. Ef þingmaður vill skipta um flokk þá ætti varaþingmaður að fá sæti svo að skipting flokkanna breytist ekki.