OECD, Efnahags- og samvinnustofnunin, hefur sent frá sér nýtt yfirlit um þróun skattbyrði í aðildarríkjum OECD. Stofnunin vekur sérstaklega athygli á því að skattbyrðin hafi lækkað í 16 af 27 aðildarríkjum OECD á síðasta ári.
Hún lækkar í 14 Evrópuríkjum en hækkar í 9 þeirra, þar á meðal Íslandi, en hér á landi hækkaði skattbyrðin úr 36,5 prósentum í 36,7 prósent. Úr tölum OECD má líka reikna út þróun skattbyrði á lengra tímabili. Ef við lítum á þróun skattbyrði frá 1995, sem er árið þegar ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks tók við stjórnartaumunum þá sjáum við að skattbyrði í ríkjum Evrópu hefur lækkað í 7 ríkjum; mest á Írlandi eða um 14,6 prósent og Póllandi 13,4 prósent. Hún hefur staðið í stað í Danmörku og Lúxemborg, en hins vegar hækkað í 13 ríkjum. Þar trónir Tyrkland á toppnum með tæplega 47 prósenta aukningu skattbyrði, en Ísland kemur þar í öðru sæti. Hér á landi hefur skattbyrðin aukist um 15,4 prósent frá miðjum síðasta áratug. Í öllum öðrum ríkjum þar sem skattbyrðin hefur aukist, nemur aukningin innan við 10 prósentum.
Skattbyrðin hér á landi er þó lægri, en meðalskattbyrði ríkja Evrópusambandsins, hér var hún í fyrra 36,7 prósent sem fyrr segir, en í ríkjum ESB var hún 40 og hálft prósent. Þar var skattbyrðin hins vegar á niðurleið en hér er hún á uppleið.
Það vekur talsverða athygli með hve ólíkum hætti Fjármálaráðuneytið og OECD kynna þessar tölur.
Fjármálaráðuneytið segir í stuttum pistli að engar umtalsverðar breytingar hafi orðið á stöðu Íslands, og það sé áfram undir hinum Norðurlöndunum og Evrópuríkjunum. OECD þykir hins vegar fréttnæmast að skattbyrðin fari lækkandi í flestum ríkjum OECD, og sérstaklega í ríkjum Evrópusambandsins.
Þess er að engu getið í frásögn Fjármálaráðuneytisins.