Manstu þegar rannsókn íslensks félagsfræðings, sýndi fram á að um tíu prósent þjóðarinnar er undir skilgreindum fátæktarmörkum. Formaður mæðrastyrksnefndar tók undir og sagði að aldrei hafi jafn margir sótt matargjafir til nefndarinnar. Hvað gerði Davíð?
Afneitaði vandanum og sagði að það sé alltaf til fólk sem vilji fá hlutina ókeypis.

Manstu þegar Ólafur Ragnar Grímsson var kjörinn forseti íslenska lýðveldisins? Hvað gerði Davíð?
- Hann lét í ljós óánægju með nýjar skýringar á orðalagi við hyllingu forseta lýðveldisins. Að mati Davíðs voru punktar og greinarmerki aðalatriðið við ávarp forsætisráðherra þegar þingheimur hrópaði húrra.

Manstu þegar Reykjavíkurlistinn sigraði í borgarstjórnarkosningunum? Hvað gerði Davíð?
- Hann reiddist og skammaði fjölmiðla fyrir hlutdrægan fréttaflutning. Sérstaklega fréttastofu Ríkisútvarpsins sem hann taldi þurfa að rannsaka sérstaklega.

Manstu þegar prestur sem starfar á Biskupsstofu og sat jafnframt í Kristnihátíðarnefnd skrifar smásögu í Morgunblaðið um fólk sem seldi Esjuna úr landi. Myndskreyting með sögunni líktist Davíð einhverju leyti. Hvað gerði Davíð?
- Hann reiddist og skrifaði biskupi bréf og varaði við svona háttalagi. Starfsmaðurinn var settur út úr Kristnihátíðarnefnd og Davíð tók gleði sína að nýju.

Manstu þegar útgerðarmaður frá Patreksfirði var sýknaður í héraðsdómi Vestfjarða af ákæru um brot á lögum um stjórn fiskveiða? Hvað gerði Davíð?
- Hann reiddist og sagði að þjóðin myndi neyðast til að flytja til Kanaríeyja ef dómurinn stæði.

Manstu þegar þingmaður Samfylkingarinnar lagði fram frumvarp um fjárreiður stjórnmálaflokka? Hvað gerði Davíð?
- Hann reiddist og skammaði þingmanninn. Í leiðinni sló hann Öryrkjabandalagið leiftursnöggt í hausinn og sakaði þá um að hafa eytt milljónum í auglýsingar fyrir Samfylkinguna.

Manstu þegar Þjóðhagsstofnun spáði aukinni verðbólgu? Hvað gerði Davíð?
- Lagði stofnunina umsvifalaust niður.


Manstu þegar sendiherra ESB segði að Evrópusambandið væri ekki ólýðræðislegasta skrifræðisbákn sem maðurinn hefur fundið upp? Hvað gerði Davíð?
- Sagði erindrekann vera útsendara andskotans [!!!!!!].

Manstu þegar Samtök iðnaðarins ákváðu að rétt væri að sækja um aðild að ESB og að evran væri fýsilegri kostur en krónan. Samtökin gerðu skoðanakönnun sem sýndi að 91% þjóðarinnar vildi hefja aðildarviðræður? Hvað gerði Davíð?
- Hann reiddist og byrjaði að tala um ólöglega innheimtu ríkisins á félagsgjöldum fyrir Samtök iðnaðarins. Að því loknu gerði Davíð sína eigin skoðanakönnun þar sem hann samdi spurningarnar sjálfur og fékk niðurstöðu sem féll að hans eigin skoðunum. Þorlákur Karlsson, forstöðumaður Gallup, gagnrýndi þessa aðferðafræði Davíðs í Mbl. þann níunda maí 2002 og taldi það af og frá að þær mældu afstöðu til ESB.Davíð undraðist viðbrögð Þorláks: "Ég hef svolítið gaman af því hvað menn eru ofboðslega æstir og trylltir út af þessari könnun. Hinir spökustu menn, meira að segja þáttastjórnendur [Egill Helgason á þessa sneið], verða trylltir af æsingi og láta allt mögulegt út úr sér. Fréttastofa útvarpsins fór nú bara um koll og hætti að vera í fréttaflutningi og fór bara í málflutning og hefur verið í því," sagði Davíð og hnýtti síðan við persónulegri árás á Þorlák Karlsson og Gallup síðar í sömu frétt: “Ég hef aldrei séð þetta áður og man ekki til þess að það hafi verið leitað til Félagsvísindastofnunar út af könnunum Gallups. Þetta er afskaplega sérstök málsmeðferð af hálfu þess aðila [Þorláks] og virðist [hann] hafa einhvern sérstakan málstað að verja. Menn hafa þá náttúrlega hliðsjón af því þegar sá aðili gerir kannanir um Evrópusambandið að hann virðist vera mjög heltekinn af því sjónarmiði. Það er dapurlegt að sjá."

Þetta mál er sérlega erfitt fyrir þá sem neita því að reiðiköst og hótanir séu hluti af pólitískum stíl Davíðs Oddssonar. Samtökum Iðnaðarins var hótað með beinum hætti og ráðist á fréttastofu Ríkisútvarpsins og Gallup. Sérlega athylisverð er persónuleg árás Davíðs Oddssonar á Þorlák Karlsson forstöðumann Gallup. Eru árásir af þessu tagi sæmandi forsætisráðherra?


————————————-
Ég er flokksbundinn Sjálfstæðismaður, en segi að nú sé komið nóg af þessari vitleysu. Það er kominn tími til að skipta Davíð Oddssyni og félögum út áður en þeir fara endanlega yfirum.