Davíð Oddsson tilkynnti á blaðamannafundi í Ráðherrabústaðnum í dag að skerðing örorkubóta verði endurgreiddar fjögur ár aftur í tímann. Óskertar bætur verða greiddar út 1. febrúar, en fyrri skerðing þann 1. apríl með sömu vöxtum og ofgreiddir skattar, 5,5%.
Davíð sagði engan ágreining hafa verið í ríkisstjórninni um málið. Hann lagði á það áherslu að það eru eingöngu hinir best settu meðal öryrkja sem njóta góðs af þeim breytingum sem gerðar verða á útreikningum bóta héðan í frá, það er að segja þeir, sem búið hafa við hæstar heimilistekjur. Aðrir, sem fengið hafa fullar bætur, óskertar vegna tekna maka, fá áfram sínar fullu bætur að sjálfsögðu, en ekkert umfram það.

Stóð alltaf til að fara eftir dómnum
Davíð dreifði síðar á fundinum frumvarpi til laga, sem byggt er á tillögum nefndarinnar, en einnig dreifði hann reglugerðum sem gilda um tekjutengingu bóta á Norðurlöndum. Sagði hann tekjutengingu vegna tekna maka alls staðar gilda á Norðurlöndunum, öfugt við það sem haldið hefði verið fram að undanförnu. Þeir, sem halda því fram að slík tekjutenging sé mikið mannréttindabrot, sagði Davíð, eru þá væntanlega að halda því fram að Norðurlöndin séu einhverjir helstu mannréttindabrjótar á jörðinni.
Davíð sagði það alrangt að ríkisstjórnin hefði verið að leita leiða til að sniðganga dóm hæstaréttar, slíkt væri einfaldlega ekki hægt og það vissu menn vel. Allar fullyrðingar um slíkt væru því út í bláinn. Hins vegar hefði verið nauðsynlegt að fara í gegnum dóminn og gera sér grein fyrir afleiðingum hans, einmitt til þess að geta farið eftir honum.
Aðspurður sagði hann að þótt honum hefði aldrei dottið í hug annað en að fara eftir dómnum, þá breytti það því ekki að hann væri ósáttur við hann. Hann sagði að sér hugnaðist það ekki, þegar hæstiréttur væri farinn að leggja pólitískar línur í störfum sínum.
Kostar milljarð
Ingibjörg Pálmadóttir, heilbrigðisráðherra, sagðist fagna niðurstöðu nefndarinnar og segir ríkisstjórnina leggja allt kapp á að ganga frá málinu með sem skjótustum hætti, og að stefnt væri að því að ganga frá málinu fyrir 1. febrúar þannig að hægt yrði að greiða öllum fullar bætur frá og með þeim degi. Þá er stefnt að því að ljúka útreikningum á endurkröfurétti einstakra bótaþega með tilliti til dómsins fyrir 1. apríl. Hún sagði breytingarnar taka til 1.000 - 1.500 bótaþega, sem hefðu búið við skerta tekjutryggingu. Tekjutrygging hefði farið allt niður í 18.000 krónu grunnlífeyri hjá þeim sem tekjuhæstu makanna eiga, en héðan í frá fær enginn undir 43.000 krónum á mánuði frá Tryggingastofnun, nema þeir afli sér þeim mun meiri aukatekna sjálfir. Heildarkostnaðurinn við þessar breytingar telur hún að sé um það bil einn milljarður króna, en árlegur kostnaður héðan í frá er í kringum 100 milljónir. Tekjutenging bóta var minnkuð tvisvar á undanförnum árum, og hefði svo ekki verið hefði kostnaðurinn nú orðið talsvert meiri eða vel á þriðja milljarð króna, að hennar sögn.
Flóknasta mál Halldórs
Halldór Ásgrímsson sagðist fagna því að niðurstaða væri komin í þetta mál, sem hann sagði eitt hið flóknasta sem hann hefði glímt við á sínum stjórnmálaferli. Hann sagði alltaf hafa legið ljóst fyrir að ekki hefði verið hægt að bregðast við þessum dómi nema að undangenginni könnun á aðstæðum og lagabreytingu í framhaldi af fenginni niðurstöðu hennar. Pólitíkin í þessu máli væri ekki ný, hún hefði legið fyrir lengi og birst í endurteknum breytingum á reglum um tekjutengingu bóta, þar sem dregið væri úr þeirri tengingu. Hins vegar væri brýnt að gera sér grein fyrir því, ef mistök hefðu átt sér stað í sölum alþingis, og leiðrétta þau ef kostur væri.
Þá ítrekaði hann það, að þessi lagabót og fjárhagslega búbót í framhaldi af henni, kæmi eingöngu öryrkjum í sambúð og hjúskap til góða, hverra maki þénaði dável. Hann taldi víst að margir yrðu fyrir vonbrigðum í framhaldi af þessari niðurstöðu, þar sem væntingar hefðu verið skapaðar á þá lund að allir öryrkjar nytu góðs af þessum dómi. Svo væri ekki, heldur væri hér eingöngu um endurgreiðslur til hinna best settu í röðum öryrkja að ræða.

Geir H. Haarde lagði á það áherslu að það hefði ekki verið hægt að greiða einfaldlega út fullar bætur 1. janúar til allra bótaþega, eins og látið hefði verið í veðri vaka. Tryggingastofnun gæti alls ekki greitt út fjármuni, sem hún hefði ekki skýra lagalega heimild til að greiða. Þá sagði Geir að menn yrðu að gera sér grein fyrir því að innan við 20% öryrkja nytu góðs af þessari breytingu.

Tekið af Visi.is

STINNI