Erlendir sérfræðingar hafa reiknað út að umferð í Reykjavík eigi eftir að aukast um 40-50 prósent fram til ársins 2024 og til að mæta því sé ég ekki annað ráð að svo stöddu en að grafa jarðgöng undir Þingholtin,“ segir Júlíus Vífill Ingvarsson borgarfulltrúi sem hyggst leggja fram tillögu í borgarstjórn þess efnis.
”Við flutning Hringbrautarinnar niður fyrir BSÍ og Tanngarð í Vatnsmýrinni koma óvenjulega flókin gatnamót á horni Njarðargötu og þar sem það er stefna borgaryfirvalda að efla atvinnu- og menningarstarfsemi í miðborginni er alveg ljóst að Sóleyjargata og Suðurgata geta aldrei annað þeirri umferð sem þar fer um í framtíðinni. Þess vegna vil ég að kannað verði af fullri alvöru hvort ekki sé æskilegt að grafa jarðgöng undir Þingholtin,“ segir Júlíus Vífill sem sér göngin fyrir sér djúpt í jörð með innkeyrslu sunnan Hringbrautar, rétt ofan við BSÍ, og út neðan við Arnarhól þar sem Faxaskáli stendur nú. Þar er einmitt fyrirhugað að reisa Tónlistar- og ráðstefnuhöll með risavöxnu bílastæðahúsi fyrir allt að 900 bifreiðar.
”Ef efla á miðborgina og láta hana lifa er alveg ljóst að núverandi gatnakerfi getur aldrei annað þeirri umferð sem því fylgir. Við verðum að hugsa í nýjum leiðum og jarðgöngin undir Þingholtin eru hluti af þeirri nýju hugsun í umferðarmálum höfuðborgarinnar," segir Júlíus Vífill.