Það læðist að manni sá hræðilegi grunur að Guð sé gleymdur. Hjá unglingunum er alla vega Guði “úti”. Hjá flestum er umræðan um Guð og það sem hann stendur fyrir - tabú. Ef einhver tæki upp á því að spjalla um Guðdóminn í kaffitímanum yrði litað á þann sama með undrunarsvip. Sá hinn sami yrði álitinn eitthvað skrýtinn eftir það.
Við sjáum að um leið og Guðshræðslan hverfur þá fylgja hræðilegir glæpir og afskiptaleysið í kjölfarið. Við sjáum glæpi sem okkur hryllir við gerast í okkar samfélagi. Við sjáum vonleysið koma yfir þjóðfélagið eins og þoka sem læðist inn af hafi.
Af hverju er svo komið?
Þarna er ekki aðeins fólkinu sjálfu um að kenna. Ég held að það sé alveg ljóst að kirkjan - þessi steinrunna stofnun sem rekin er á kostnað ríkisins - sé ein ástæðan. Í stað þess að kalla til sín sauðina - fælir hún þá frá.
Önnur ástæða er að við höfum það of gott. Þá gleymist hvaðan við fáum “auðæfin”. Gleymist að við eigum allt undir náttúruöflunum - já allt undir Guði.
Stjórnmálamenn eiga einnig sína sök. Getum við litið upp til einhvers stjórnmálamanns sem opinberað hefur trú sína og rekur áróður fyrir trúnni?
Í dag er ríkið alfa og omega alls. Allt kemur frá “ríkinu”. Það gleymist bara að það er ekki rétta “ríkið”.