Þarf umhverfisráðherra að víkja sæti? Í fréttum Rúv áðan kom fram að hugsanlegt væri að Siv Friðleifsdóttir umhverfisráðherra gæti þurft að víkja ef að kæra um Norðlingaölduveitu berst til umhverfisráðuneytisins sökum þess að hún tjáði sig opinberlega um málið. Magnús Jóhannesson, ráðuneytisstjóri hafði m.a. þetta um málið að segja (tekið af mbl.is):

“Magnús segir að Siv Friðleifsdóttir hafi í febrúar árið 2001 tjáð sig opinberlega um Þjórsárver í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins. Vegna þess sé ráðherrann vanhæfur skv. 3. gr. stjórnsýslulaga. Í lögunum segir m.a. að starfsmaður eða nefndarmaður sé vanhæfur til meðferðar máls ef fyrir hendi eru þær aðstæður sem eru fallnar til þess að draga óhlutdrægni hans í efa með réttu.”

Er ekki e-ð bogið við þetta? Verða allir þeir sem hafa hug á að verða umhverfisráðherrar einhvern tíma í lífi sínu að steinþegja ef að þeir eiga ekki að verða vanhæfir? Hvernig verður það þá ef að þingmaður VG verður umhverfisráðherra? Nú hafa margir VG þingmenn lýst því yfir að það þurfi að vernda náttúru Íslands og verða þeir þá allir vanhæfir?

Í þriðju grein stjórnsýslulaga segir (frá althingi.is):

“ 3. gr. Vanhæfisástæður.
Starfsmaður eða nefndarmaður er vanhæfur til meðferðar máls:
1. Ef hann er aðili máls, fyrirsvarsmaður eða umboðsmaður aðila.
2. Ef hann er eða hefur verið maki aðila, skyldur eða mægður aðila í beinan legg eða að öðrum lið til hliðar eða tengdur aðila með sama hætti vegna ættleiðingar.
3. Ef hann tengist fyrirsvarsmanni eða umboðsmanni aðila með þeim hætti sem segir í 2. tölul.
4. Á kærustigi hafi hann áður tekið þátt í meðferð málsins á lægra stjórnsýslustigi. Það sama á við um starfsmann sem fer með umsjónar- eða eftirlitsvald hafi hann áður haft afskipti af málinu hjá þeirri stofnun sem eftirlitið lýtur að.
5. Ef málið varðar hann sjálfan verulega, venslamenn hans skv. 2. tölul., næstu yfirmenn persónulega eða stofnun eða fyrirtæki í einkaeigu sem hann er í fyrirsvari fyrir.
6. Ef að öðru leyti eru fyrir hendi þær aðstæður sem eru fallnar til þess að draga óhlutdrægni hans í efa með réttu.
Eigi er þó um vanhæfi að ræða ef þeir hagsmunir, sem málið snýst um, eru það smávægilegir, eðli málsins er með þeim hætti eða þáttur starfsmanns eða nefndarmanns í meðferð málsins er það lítilfjörlegur að ekki er talin hætta á að ómálefnaleg sjónarmið hafi áhrif á ákvörðun.”

Hvergi segið orðrétt að það að tjá sig um mál opinberlega sé vanhæfnisástæða (þó helst 6.grein sem kemur til greina). Nú veit ég ekki um aðra ráðherra en ef þetta fer út í öfgar, verða stjórnmálamenn ekki bara að þegja til þess að þeir verða ekki vanhæfir (getur Davíð Odds. t.d. tekið ákvörðun um Evrópusambandið eftir þau ummæli sem hann hefur látið falla?)

geiri2