Frjálshyggjufélagið er nýstofnað félag sem hyggst starfa að fræðslu um frjálshyggju á Íslandi. Þegar fram í sækir er stefnt að framboði í kosningum til Alþingis. Það verður þó ekki í næstu kosningum, enda telja félagsmenn óraunhæft að undirbúa árangursríkt framboð í öllum kjördæmum á svo stuttum tíma.

Stefnuskrá félagsins má finna á hér á vefnum. Í henni kemur fram ítarlegur rökstuðningur fyrir frelsi einstaklingsins á hinum margvíslegu sviðum. Frjálshyggjufélagið setur fram skynsamlegar hugmyndir um hvernig nálgast megi skipulag frelsis á nokkrum sviðum, eins og til dæmis í heilbrigðiskerfi, menntakerfi og landbúnaðarkerfi. Þessar hugmyndir miða að því að ná fram kostum frelsis og einkarekstrar þannig að fólk sem nú treystir á stuðning þessara kerfa hljóti betri kjör en ella.

Stofnendur félagsins eru vel á annan tug ungra frjálshyggjumanna. Nú þegar hefur dágóður hópur fólks að auki lýst áhuga á að starfa í félaginu.

Flestir félagsmenn eru fyrrverandi félagar í Sjálfstæðisflokknum. Þeir skilja við sinn gamla flokk í góðu og óska frjálshyggjumönnum í honum velfarnaðar í baráttunni fyrir frelsi. Í Sjálfstæðisflokknum er fjöldi góðs fólks sem vill þjóðfélaginu vel. Meðlimir Frjálshyggjufélagsins eru þeirrar skoðunar að þeir geti unnið betur að hugsjónum sínum annars staðar en í Sjálfstæðisflokknum. Fólk hefur mismunandi skoðanir á því hvernig best sé að vinna að framgangi réttlætis og velferðar og er ekkert nema gott um það að segja að hver fylgi sannfæringu sinni.

Haukur Örn Birgisson var kjörinn fyrsti formaður félagsins á stofnfundi. Með honum í stjórn voru kjörnir Hjalti Baldursson, Ívar Páll Jónsson, Konráð Jónsson og Steinar Örn Jónsson. Friðbjörn Orri Ketilsson er framkvæmdastjóri félagsins.

Heimasíða félagsins er www.frjalshyggja.is