Sæl öll,

Hér fer á eftir mjög áhugaverð grein um Evrópumálin, sem birtist í Morgunblaðinu í dag 6. ágúst. Að mínu mati er þetta þarft innlegg í umræðuna.



Innlent | 06. 08. 2002 | ESB

Áhætta eða örugg auðlegð?

SAMEINUÐU þjóðirnar gefa út skýrslu, einu sinni á ári, um lífsgæði þjóðanna. Í nýrri skýrslu sem kom út nú fyrir skömmu heldur Ísland sjöunda sæti listans, annað árið í röð. Áhugavert er að skoða listann með það til hliðsjónar hvaða ríki eru innan ESB og hver ekki. Í efsta sætinu eru, sem dæmi, Norðmenn sem standa fyrir utan ESB en langflest lönd á topp 10-listanum eru fyrir utan sambandið.

Af hverju eigum við að einblína á Evrópu og eiga með því á hættu að einangrast í þröngsýni frá öðrum heimshlutum ásamt því að festast í þeirri meðalmennsku sem Evrópusambandið óneitanlega festir aðildarríki sín í? Með EES-samningnum fengu Íslendingar svokallað \“fjórfrelsi\” sem veitti okkur: frjálst flæði á vöru, þjónustu, fólki og fjármagni. Oft hefur verið tönnlast á því að með EES höfum við fengið 80% af því sem Evrópusambandið hefur upp á að bjóða sem er okkur í hag, en verið laus undan þeim 20% sem henta okkur ekki.

Ekki verður lagt mat á hversu mikið er til í þessum tölum en ljóst er að reglur og lagasetningar varðandi landbúnað og sjávarútveg sem við óneitanlega þyrftum að beygja okkur undir, ef til aðildar kæmi, henta okkur afar illa. Auk þess sem þessi svokölluðu áhrif sem við hugsanlega gætum haft innan ESB eru mjög takmörkuð. Færð hafa verið rök fyrir því að skoðanir Íslands myndu vega um 1-2% í ákvarðanatöku innan ESB! Ekki nóg með það heldur var sagt í fréttum nýlega frá skoðunum manna innan úr herbúðum ESB þess efnis að áhrif smáþjóða í sambandinu væru ef til vill of mikil. Þessi vitneskja getur varla talist gott veganesti fyrir Íslendinga inn í framtíðina sem aðili að ESB.

Þeir sem helst hafa verið hlynntir inngöngu Íslands í ESB hafa mikið tönnlast á fullveldishugtakinu. Að við séum, sem aðilar að EES-samningnum, móttakendur leikreglna frá Brussel sem við getum lítið haft áhrif á. Þetta ristir grunnt þar sem við erum aðilar að mörgum stofnunum og samtökum þar sem flæða yfir okkur leikreglur sem okkur ber að fara eftir. Sem dæmi WTO og Sameinuðu þjóðirnar. Er ekki fullveldið þá að tapast þar líka?

Hagkerfi ESB-landa sveiflast algjörlega úr takt við það sem gerist hér á landi, eins og oft hefur komið fram. Ekki verður þó dregið úr því að á einhverjum áratugum gæti íslenska hagkerfið lagað sig að Evrópu og fest svo í þeirri meðalmennsku sem þar er í boði, en spurningin er viljum við það? Við erum í dag langt frá því að vera meðalþjóð samkvæmt Sameinuðu þjóðunum. Viljum við dragast aftur úr?

Sjávarútvegurinn hefur verið mest áberandi í ESB-umræðunni. Það er eðlilegt vegna mikilvægis hans í hagkerfi Íslands. Það er deginum ljósara að sjávarútvegsstefna ESB er í molum en sambandið hefur í raun aldrei litið á sjávarútveginn sem \“alvöru\” atvinnugrein. Franz Fischler, sem fer með sjávarútvegsmál innan framkvæmdastjórnar ESB, hefur látið hafa eftir sér varðandi sjávarútveginn innan ESB: \“Hrun blasir við æ fleiri fiskistofnum. Sóknargeta flotans er ekki að minnka heldur þvert á móti að aukast. Eftirlit og viðurlög eru misjöfn og þess vegna óréttlát. Æ meiri sókn í stofnana skilar æ minni afla. Hagur sjómanna versnar og þrátt fyrir háa opinbera styrki neyðast sífellt fleiri til að gefa sjómennskuna upp á bátinn.\”

Er þetta eitthvað sem við viljum kalla yfir okkur? Á Íslandi er sjávarútvegurinn arðbær atvinnugrein sem blómstrar án þess að vera sífellt í öndunarvélum hins opinbera, líkt og sjávarútvegsfyrirtæki innan ESB. Einnig hefur margsinnis komið fram frá sambandinu að Íslendingar fái enga undanþágu frá sjávarútvegsstefnu ESB frekar en önnur lönd hafa fengið með önnur mál. Er þetta virkilega það sem þjóðin vill, fara aftur um meira en 30 ár með því að færa lögsöguna í 12 mílur sem aðildin neyðir okkur til, láta styrki byrja að flæða aftur inn í sjávarútveginn og uppskera eins og Franz Fischler lýsir hér að ofan?

Þeir sem flagga því að háir vextir og hátt matvöruverð séu fylgifiskar þess að vera fyrir utan ESB fara villir vega. Auðvitað er hægt að breyta vaxtastigi Íslands og lækka vexti án þess að fara inn í ESB auk þess sem öllum þessum furðulegu reglum og lagasetningum sem varða innflutning á landbúnaðarvörum og styrkjaflæði hins opinbera til hans hér á landi er auðveldlega hægt að breyta án inngöngu í ESB. Markaðsvæðing landbúnaðarins er löngu nauðsynleg og myndi vekja bændur og verða þeim hvatning til hagræðingar og aðlögunar á breyttum markaði. Þetta vitum við og þekkjum vel þar sem sagan hefur margsinnis kennt okkur Íslendingum að það er engri atvinnugrein hollt að vera haldið uppi á ríkisstyrkjum. Það ber svo að nefna að íslenskir skattgreiðendur myndu varla hoppa af kæti við hækkun gjalda, værum við innan ESB. Þessi auknu gjöld færu svo í að styrkja t.d. lönd Austur-Evrópu vegna offramleiðslu á vörum sem síðan yrðu fluttar til Íslands og boðnar á verði undir því íslenska með tilheyrandi afleiðingum.

Lítið hefur verið minnst á hvað gerðist ef við færum inn í ESB og svo einhverra hluta vegna við þyrftum að bakka út vegna breytinga á stefnum þess, til dæmis varðandi sjávarútveginn, sem óviðunandi væri fyrir Ísland að samþykkja. Við þær aðstæður getum við verið fullviss um að Evrópubankinn myndi að einhverju leyti nota refsivald sitt. Ef við færum úr sambandinu er auðvelt að ímynda sér EES-samninginn á bak og burt og mjög svo breytt umhverfi Íslendinga til viðskipta inni á Evrópumarkaðinum til hins verra.

Í dag höfum við ekkert við ESB að gera enda mikil óvissa og áhætta sem af inngöngu gæti stafað fyrir hag landsins. Við höfum aðgang að Evrópumarkaðinum með EES-samningnum, sem virkar afar vel, Ísland blómstrar eins og skýrslur Sameinuðu þjóðanna staðfesta og Evrópusambandið er að mótast og breytast mikið, m.a. vegna stækkunar sambandsins. Þess vegna er áhættan, sem óneitanlega fylgir aðild, alltof mikil fyrir okkur. Skynsemin segir okkur að fylgjast með sambandinu og þróun þess en hætta að huga að aðild. Með því veljum við örugga leið að áframhaldandi framförum og auðlegð fyrir utan ESB en með aðild að Evrópumarkaðnum. Á sama tíma höfum við fullt frelsi í öllum okkar málum hvað varðar viðskipti við aðrar heimsálfur, hagkerfið, sjávarútveginn og landbúnaðinn.

Guðmundur Arnar Guðmundsson
Höfundur er hag- og viðskiptafræðinemi í Kanada.

—–

Kv.

Hjörtur J.
Með kveðju,