Undanfarinn áratug hafa vinstri flokkarnir á Íslandi verið í stjórnarandstöðu og í raun verið áhrifalausir með öllu í landsmálapólitík. Eyðimerkurganga þeirra er orðin löng og ströng og hefur tekið á. Ég mun í þessum pistli fara yfir niðurlægingartímabil vinstri manna sem hófst í raun eftir þingkosningarnar 1991 og er söguleg í meira lagi.

Síðast var vinstri stjórn við völd á Íslandi 1988-1991, en hún tók við völdum í septembermánuði 1988 eftir að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Alþýðuflokks og Framsóknarflokks undir forsæti Þorsteins Pálssonar sprakk í loft upp með miklum hvelli. Steingrímur Hermannsson myndaði þá ríkisstjórn Framsóknarflokks, Alþýðuflokks og Alþýðubandalags, frægt varð þegar Stefán Valgeirsson seldi stuðning sinn við stjórnina afar dýru verði og lofaði atbeini huldumanna á þingi sem stuðning við stjórnina. Óhætt er að segja að Stefán hafi grætt verulega á oddaaðstöðu sinni og hafi notað sér aðstöðuna vel, og minnist Steingrímur Hermannsson á það í lokabindi ævisögu sinnar að honum hafi þótt nóg um frekjuna í Stefáni. Það breyttist þó þegar Borgaraflokkurinn varð aðili að stjórninni í september 1989. Stjórnin sat það sem eftir lifði kjörtímabilsins, en eftir þingkosningarnar 1991 varð ljóst að samstaða stjórnarflokkanna hafði brostið vegna ólíkra áherslna um EES-samkomulagið, álversmál og fleiri atriði. Þrátt fyrir að vinstri stjórnin hefði haldið velli í kosningunum ákvað Alþýðuflokkurinn (sem var í oddaaðstöðu) að mynda stjórn með sigurvegara kosninganna, Sjálfstæðisflokknum, sem hlaut 26 þingsæti eftir harkaleg formannsskipti í aðdraganda kosninganna, og halda því ekki áfram fyrra samstarfi, þrátt fyrir að formaður Alþýðubandalagsins og varaformaður Framsóknarflokksins hefðu boðið Jóni Baldvin Hannibalssyni formanni Alþýðuflokksins, forsætisráðuneytið í nýrri vinstristjórn, án þess þó að ráðfæra sig við sitjandi forsætisráðherra og formann Framsóknarflokksins (ég hvet áhugasama til að lesa um áhugaverðar lýsingar Steingríms Hermannssonar á setu vinstri stjórnarinnar og aðdraganda stjórnarslitanna í ævisögu hans). Niðurstaðan varð sú að Davíð Oddsson varð forsætisráðherra í stjórn flokkanna tveggja, sem var mynduð á einni helgi í apríllok 1991 í Viðey. Samstarf flokkanna varð stormasamt og munaði oft litlu að uppúr syði endanlega á kjörtímabilinu, og voru deilur oft miklar um menn og málefni.

Það sem umfram allt gerði þó útaf við stjórnina voru innanflokksátök innan Alþýðuflokksins. Jón Baldvin Hannibalsson þáv. utanríkisráðherra, og Jóhanna Sigurðardóttir þáv. félagsmálaráðherra, höfðu lengi háð valdastríð innan flokksins, í níu ár sátu þau saman sem formaður og varaformaður flokksins, en í júní 1993 sagði Jóhanna af sér varaformannsstöðunni vegna ágreinings um ráðherraskipti innan flokksins. Ári síðar, í júní 1994, ákvað Jóhanna að sverfa endanlega til stáls og bauð sig fram gegn Jóni í formannskjöri á landsfundi flokksins. Sá slagur varð harður og er óhætt að segja að allt hafi verið lagt undir. Niðurstaðan varð engu að síður nokkuð afgerandi; Jón Baldvin sigraði Jóhönnu með talsverðum yfirburðum eftir að hafa setið á formannsstóli í áratug. Frægt varð þegar Jóhanna fór í pontu og lýsti úrslitum kosninganna, margir höfðu á orði að hún tæki úrslitunum með ótrúlegu jafnaðargeði. Fleyg urðu lokaorð hennar þegar hún horfði út í salinn við lok ræðunnar, kreppti upp aðra hendi sína og kallaði; Minn tími mun koma! Margir voru á því að Jóhanna myndi una úrslitunum og voru vongóðir um að flokkurinn gæti sameinast í aðdraganda þingkosninganna 1995. Svo fór ekki. 24. júní baðst Jóhanna lausnar af ráðherrastóli og hóf undirbúning nýs flokks sem myndi bjóða fram á landsvísu. Í september sagði hún sig úr Alþýðuflokknum og í nóvember tilkynnti hún um stofnun Þjóðvaka - hreyfingar fólksins. Í skoðanakönnunum haustið 1994, mældist nýstofnaður flokkur Jóhönnu með gríðarlega mikið fylgi og fékk mest um þriðjungsfylgi, Alþýðuflokkurinn var að þurrkast út þegar þarna var komið sögu vegna hneykslismála.

Það er óhætt að segja Alþýðuflokkurinn hafi logað stafna á milli haustið 1994 og snemma veturs. Ekki eingöngu vegna afsagnar Jóhönnu, heldur mun frekar vegna hneykslismála sem kennd voru við Guðmund Árna Stefánsson sem tók við ráðuneyti Jóhönnu, afsögn Jóhönnu bætti þó ekki úr skák. Þetta haust logaði þjóðfélagið vegna meintrar spillingar Guðmundar í Heilbrigðisráðuneytinu og sem bæjarstjóra í Hafnarfirði 1986-1993. Jón Baldvin vissi sem var að Alþýðuflokkurinn myndi ekki lifa veturinn af nema með því að boða siðbót í íslenskum stjórnmálum - í septemberlok tilkynnti hann að allt skyldi upp á borðið. Ríkisendurskoðun var fengin til að fara yfir störf allra ráðherra flokksins og embættisverk þeirra. Niðurstaða Ríkisendurskoðunar var væntanleg í byrjun nóvembermánuðar, en á meðan barðist Guðmundur Árni hatrammlega fyrir pólitísku lífi sínu og varð oftar en ekki að eiga við blóðþyrsta fréttamenn og andstæðinga á þingi sem lögðu fram vantrauststillögu á ráðherrann á þingi sama haust. Í þessum átökum studdi Sjálfstæðisflokkurinn og formaður flokksins, ráðherrann í þeim eltingarleik sem átti sér stað og mætti segja að stuðningur Davíðs Oddssonar við Guðmund Árna hafi verið meiri en stuðningur formanns Alþýðuflokksins við eigin ráðherra. Í byrjun nóvember varð þó ljóst að annaðhvort myndi ráðherrann víkja sjálfviljugur eða honum yrði vikið úr stjórninni. Föstudaginn 11. nóvember gafst Guðmundur Árni upp og afsalaði sér ráðherrastól sínum, eftirmaður hans varð Rannveig Guðmundsdóttir. Eftir þessar hremmingar á sannkölluðu hörmungarári stóð Alþýðuflokkurinn eftir í rústum og þurfti að byggja sig upp fyrir kosningabaráttu.

Flokkurinn náði með undraverðum hætti að byggja sig upp fyrir kosningar og saxa verulega á fylgi flokks Jóhönnu. Úrslit kosninganna voru þau að Jóhanna vann engan kosningasigur, flokkur hennar hlaut fjóra þingmenn kjörna en Alþýðuflokkurinn hlaut 7, tapaði þrem frá kosningunum 1991. Alþýðubandalagið og Sjálfstæðisflokkur stóðu í stað, Kvennalisti þurrkaðist næstum út, en sigurvegari kosninganna var Framsóknarflokkurinn undir forystu Halldórs Ásgrímssonar. Stjórnarflokkarnir hófu stjórnarmyndunarviðræður en vegna naums þingmeirihluta ákvað Sjálfstæðisflokkurinn að leggja ekki í annað kjörtímabil með eins sætis meirihluta. Niðurstaðan varð ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Jón Baldvin og Alþýðuflokkurinn stóðu eftir í kuldanum eftir hetjulega baráttu í kosningaslagnum. Fræg voru afskipti Ólafs Ragnars Grímssonar fyrir kjördag. Hann lagði fram drög að stjórnarsáttmála sem vinstri flokkarnir og Framsókn gætu unnið eftir ef til samstarfs kæmi, þau afskipti féllu ekki í kramið og gerðu formann Framsóknarflokks fráhverfari vinstri stjórn frekar en hitt. Komið var að pólitískum leiðarlokum hjá fóstbræðrunum fyrrverandi að vestan, þeim Ólafi Ragnari Grímssyni og Jóni Baldvin Hannibalssyni, sem hættu afskiptum af stjórnmálum á kjörtímabilinu. Ólafur kom öllum á óvart og gaf kost á sér í forsetakosningunum 1996 og vann glæsilegan sigur með talsverðu atbeina eiginkonu sinnar og dætra og varð eftirmaður Vigdísar Finnbogadóttur á forsetastóli. Jón Baldvin varð sendiherra í Washington í árslok 1997. Eftirmenn þeirra urðu Margrét Frímannsdóttir og Sighvatur Björgvinsson. Á þessu kjörtímabili var stefnt að sameinuðum flokki vinstri manna, svokallaðri Samfylkingu, sem myndi taka við stjórnartaumunum. Það virtist vera sem vinstri menn væru komnir á beinu brautina eftir allar hremmingarnar.

Raunin varð allt önnur, Steingrímur J. Sigfússon og stuðningsmenn hans í Alþýðubandalaginu sem urðu undir í formannsslag innan flokksins 1995, sættu sig ekki við draumsýn Ólafssinna í flokknum og yfirgáfu Alþýðubandalagið haustið 1998 og hugðu á stofnun nýs flokks. Niðurstaðan varð Vinstrihreyfingin - grænt framboð. Börðust Samfylking vinstri manna og VG um fylgi vinstri manna í þingkosningunum 1999, og leiddu Steingrímur J. og Margrét Frímannsdóttir flokkana í kosningaslagnum. Fóru mál á þann veg að Samfylkingin vann ekki þann sögulega sigur sem vænst var eftir, hlaut 17 þingsæti, sem var mun minna en spáð hafði verið í upphafi kosningaslagsins. Steingrímur J. kom á óvart og flokkur hans vann 6 þingsæti, þ.á.m. 2 í kjördæmi hans, Norðurlandskjördæmi eystra og fór Árni Steinar Jóhannsson inn á þing með Steingrími J. Niðurstaðan voru mikil vonbrigði fyrir Samfylkingarsinna. Ríkisstjórnarsamstarf stjórnarflokkanna hélt velli og sat stjórnin áfram eins og ekkert hefði í skorist. Á kjörtímabilinu jókst fylgi VG til mikilla muna og í ársbyrjun 2002 þegar kosningabaráttan hófst fyrir byggðakosningar náði fylgi flokksins hámarki. Sú ákvörðun að taka þátt í R-listasamstarfinu reyndist afdrifarík og frá þeim tíma hefur fylgið legið niður á við. Samfylkingin hefur hinsvegar rétt úr kútnum og aukið fylgi sitt eftir magra daga undir forystu Össurar Skarphéðinssonar sem varð fyrsti formaður flokksins árið 2000.

Nú þegar styttist í sögulegar þingkosningar bendir flest til þess að vinstriflokkarnir þurfi að halda áfram eyðimerkurgöngunni. Það sést í hverri könnuninni á eftir annarri að almenningur treystir þeim ekki fyrir forystu í landsmálunum. Samfylkingin reynir að vinna tiltrú almennings og verður athyglisvert að sjá hvort borgarstjórinn í Reykjavík muni reyna að leggja sitt af mörkum til að rétta hlut flokksins í landsmálapólitík. Einnig verður athyglisvert að fylgjast með VG á komandi kjörtímabili og hvort flokkurinn muni rétta úr kútnum eftir að hafa misst stóran hluta þess mikla fylgis sem flokksmenn töldu að væri komið í hús. Mun eyðimerkurganga vinstri flokkanna halda áfram eða munu þeir bæta hlut sinn. Framundan er söguleg barátta hægri og vinstri blokkarinnar - spennandi slagur um völd og áhrif.

Netfang:
political@visir.is
Heimasíða:
kasmir.hugi.is/political