Ég hlýddi á þátt í sjónvarpi ( Kastljós ) nú fyrir nokkrum dögum þar sem tveir ungir menn menntaðir í viðskiptasiðfræði voru til viðtals, vegna uppákoma í íslensku viðskiptalífi undanfarið þar sem stjórnmálamönnum virðist hafa mistekist eitthvað í því að girða girðingar í formi laga á hinum íslenska fjármálamarkaði, varðandi
t.d. svonefnda stofnfjáreigendur og möguleika þeirra hinna sömu til þess að verja fé sínu á hinum frjálsa íslenzka markaði.

Í máli þeirra kom fram að viðskiptasiðferði yrði ekki aðskilið almennu siðferði og siðferðisvitund hvers einstaklings til handa sér í sínu samfélagi.

Í mínum huga er þetta sjónarspil bankamála á vettvangi fjölmiðla mestmengis til lítils sóma nokkrum einasta hlutaðeigandi, en fátt er þó með öllu illt því þetta hefur birt okkur hin gegndarlausu markaðslögmál peninganna sem svo sem er ágætt að almenningur fái vitneskju um þar sem nær allir fjölmiðlar hafa fengið smjörþefinn af.

Síðast í dag heyrði ég konu kynna könnun meðal almennings á öldum ljósvakans þess efnis að fleiri vildu ekki að Spron sameinaðist Búnaðarbanka en hitt þar sem vikmörkin prósentulega með og á móti voru c.a. 3 prósent en sú hin sama taldi ótvíræð skilaboð um meirihlutavilja.

Satt best að segja vildi ég sjálf fá að heyra eithvað frá viðskiptavinum SPRON annars vegar og Búnaðarbanka hins vegar til þess að geta myndað mér afstöðu, en svo vill til að ég sjálf hef nú nýlega ( eftir áramót ) kynnst ´nýrri aðferðafræði af hálfu SPRON , aðferðafræði sem ég get ekki hrópað húrra fyrir
og virtist helst í þeim anda að loka á fyrirgreiðslu hvers konar sem verið hafði fyrir hendi um árabil hvað mig sjálfa varðar þar sem persónuleg tengsl og traust við samskiptaaðila var ekki fyrir hendi sökum mannaskipta í lykilstöðum í útibúum og ósveigjanleg fyrirmæli um ENGA fyrirgreiðslu var það sem maður mætti ALLT Í EINU.

Þegar ég las um það í fréttabréfi bankans að meiningin væri að gera þann hinn sama að hlutafélagi fannst mér skýring stefnu þessarar vera fundin, og ég og mín “ litlu ” viðskipti með laun mín væru þar ekki virði mikils á markaðstorginu mikla þar sem stærri fjárhæðir væru eftirsóknarverðari til viðskipta.

Mér þætti fróðlegt að heyra álit annarra í þessu efni , hvað varðar til dæmis útlánastefnu bankanna almennt, því okkur er það í sjálfsvald sett HVORT við leggjum laun okkar í banka sem og HVAÐA banka þar sem við sennilega ætlumst til að sá hinn sami sé þess umkominn að gera eitthvað annað en að rýra vor launakjör í formi gjaldtöku til þess að þjóna sjálfum sér ellegar setji okkur þau skilyrði að skipta ekki við aðra banka allt í einu, ef við viljum njóta fyrirgreiðslu þótt bankinn hafi fengið laun til umsýslu árum saman.


með kveðju.
gmaria.