Undanfarna mánuði og vikur hefur mikið borið á umræðunni um Evrópumálin og því að fólk sé í meira mæli farið að kynna sér kosti og galla aðildar að Evrópusambandinu. Hafa þessar umræður litað mjög pólitíska andrúmsloftið og er öllum ljóst að leiðtogar stjórnarflokkanna eru ekki fyllilega sammála um hvort sækja skuli um aðild eður ei. Sjálfstæðisflokkurinn hefur tekið afstöðu gegn aðildinni og Davíð Oddsson forsætisráðherra og formaður flokksins, hefur farið mikinn í umræðunni - í ræðu hans á Austurvelli 17. júní og í viðtali Ómars Friðrikssonar komu fram eindregin afstaða Davíðs í Evrópumálum; aðild er í hans huga ekki á dagskrá og hann telur útilokað að ríkisstjórn verði mynduð um þær áherslur á næsta ári, að afloknum þingkosningum.

Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra, hefur ekki farið leynt með að hann telji að kanna verði til hlýtar kosti og galla aðildar, en hefur þó enn ekki tekið eindregna afstöðu í því hvort sækja skuli um aðild. Það var kjaftshögg fyrir ráðherrann að ungliðar í Framsóknarflokknum skyldu ekki vilja marka sér þá stefnu að sækja um aðild, þeir vildu heldur uppfæra EES-samninginn. Er vandséð hvernig Halldór geti sannfært flokkskjarnann um ágæti aðildar fyrst ungliðarnir eru mótfallnir aðild nú. Það mun ráðast á næstu mánuðum hvort flokkurinn muni setja þetta mál á oddinn, en líkurnar á því hafa minnkað til muna eftir þing ungliðanna. Vakið hefur mikla athygli hvernig sendiherra ESB hefur ráðist að forsætisráðherra Íslands, það er sennilega einsdæmi að forsætisráðherra lýðræðisríkis þurfi að sitja undir slíkum árásum sem verða að teljast afskaplega ómálefnalegar.

Nú hafa komið fram samtök þeirra sem eru mótfallnir aðild og er mikið ánægjuefni að stuðningsmenn og andstæðingar aðildar geti valið skoðunum sínum heimili í Evrópuumræðunni. Það er greinilegt að stofnun Heimssýnar, hreyfingar sjálfstæðissinna í Evrópumálum, hefur valdið þáttaskilum í umræðunni um hugsanlega aðildarumsókn Íslands að ESB. Þar er samkomið fólk úr öllum flokkum og vekur mikla athygli að þar eru samherjar; Ragnar Arnalds, Hannes Hólmsteinn Gissurarson, Steingrímur Hermannsson, Sigurður Kári Kristjánsson, Ármann Jakobsson, Eyþór Arnalds, Ingvar Gíslason og fjölmargir fleiri sem hafa markað sér ólíkar stjórnmálaskoðanir en sameinast í þessum félagsskap. Ég hef ákveðið að ganga í Heimssýn og taka þátt í því starfi sem þar verður unnið og hlakka til að taka þátt í þeim líflegu skoðanaskiptum sem framundan eru í Evrópumálum á næstu mánuðum.

Er mjög nauðsynlegt að þessi mál séu rædd á málefnalegan hátt - enda er þetta mikilvægt málefni, hér er verið að ákveða framtíð Íslands. Ef gengið verður í samtökin verður ekki aftur snúið - þetta er hinsvegar framtíðarsinfónía og ólíklegt að aðild verði aðalkosningamálið á næsta ári. Það verður hinsvegar mikið rætt um Evrópumálin og er öllum hollt að taka afstöðu og móta skoðanir sínar í þeim samtökum sem standa þeim til boða sem hafa tekið afstöðu. Hvort sótt verður um aðild eður ei er málefni sem allir verða að taka afstöðu til og nauðsynlegt að málin séu rædd á málefnalegan hátt.

political@visir.is
kasmir.hugi.is/political