Að einangra sig í Evrópusambandinu
www.framfarir.net

Ákveðnir aðilar hér á landi hafa hingað til viljað kalla sig Evrópusinna og það með röngu. Þetta eru þeir aðilar sem vinna að því leynt og ljóst að koma Íslandi inn í Evrópusambandið sem síðast þegar ég vissi var ekki það sama og Evrópa. Svo virðist þó vera í hugum umræddra aðila sem með réttu eiga auðvitað að nefnast Evrópusambandssinnar eða einfaldlega ESB-sinnar.

Evrópusambandssinnar saka mig og aðra andstæðinga sína um að vera einangrunarsinna og um að vera á móti samvinnu á milli Evrópuþjóða. En þessu er einmitt öfugt farið. Ég er persónulega afar hlynntur sem mestu jákvæðu og uppbyggjandi samstarfi á milli ríkja Evrópu, svo og alls heimsins, þar sem allir sitja við sama borð og enginn er yfir aðra settur svo ekki þurfi að koma til neitt fullveldisafsal.

En Evrópusambandssinnar vilja ekki frjálsa samvinnu á milli Evrópuþjóða á jafnréttisgrundvelli. Þeir vilja koma okkur undir yfirþjóðlegt vald og selja úr landi fullveldi þjóðarinnar og sjálfsákvörðunarrétt. Þeir vilja einangra okkur inni í tolla- og samskiptamúrum Evrópusambandsins og afsala okkur sjálfsögðum rétti okkar til viðskiptasamninga, og annarra formlegra samskipta, við heiminn fyrir utan sambandið.

Þessir aðilar kalla andstæðinga sína einangrunarsinna, sem fyrr segir, en eru það síðan sjálfir þegar upp er staðið. Þeir tala eins og Evrópusambandið sé allur heimurinn og að ekkert sé fyrir utan það. Ekkert virðist einfaldlega skipta máli í hugum þessara aðila annað en Evrópusambandið. Þröngsýnin er allsráðandi.

Hjörtur J.

(Áður birt í Morgunblaðinu 26. júní 2002)
Með kveðju,